Guttormur 2 afhjúpaður

Hinn nýi Guttormur.
Hinn nýi Guttormur.

Útilistaverkið Guttormur var afhjúpað í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum við hátíðlega athöfn í morgun. Verkið er fyrsta samfélagslistaverkið í borginni  og var unnið af íbúum í Laugardalshverfi, en Reykjavíkurborg styrkti verkefnið með framlagi úr forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar.

Stærstan þátt í listaverkinu eiga 23 nemendur úr hverfisskólunum þremur Voga-, Langholts- og Laugalækjarskóla. Krakkarnir nutu leiðsagnar myndlistarkvennanna Ólafar Nordal og Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur við útfærsluna á Guttormi og Kristín Þorleifsdóttir formaður Íbúasamtaka Laugardals stýrði framkvæmdinni. Unnu krakkarnir í tvær vikur við að þróa og skapa hinn nýja Guttorm sem framvegis verður tákn Laugardalshverfis.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, sagði verkefnið ekki aðeins skila sér í skemmtilegu listaverki heldur einnig í sterkari tengslum milli stofnana innan hverfisins, barna í hverfisskólunum – svo ekki sé minnst á íbúana almennt.

Að lokinni afhjúpun verksins, flutti hljómsveitin Blanco eitt lag og var gestum svo boðið upp á veitingar.

Guttormur heimsótti í dag alla skólana í hverfinu í dag. Hann verður svo á flakki um Laugardalshverfið í allt sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert