Horft er til þess að lífeyrissjóðir geti lánað Landsvirkjun fjármagn en fundur um fyrirhugað skuldabréfahútboð fyrirtækisins í dollurum hér á landi, ásamt öðrum þáttum er snerta fjárhagsstöðu fyrirtækisins, fer fram í dag á Hilton Nordica hóteli.
Einnig hefur verið rætt um að lífeyrissóðir greiði fyrir fjármögnun ýmissa verkefna, þar á meðal uppbyggingu hátæknisjúkrahúss og tvöföldun Hvalfjarðarganga, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Á fundi aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa frá fjórum stærstu lífeyrissjóðum landsins, Lífeyrissjóði verslunarmanna, Gildi, LSR og Sameinaða lífeyrissjóðnum, í gær var meðal annars rætt um að lífeyrissjóðirnir flyttu erlendar eignir sínar heim til að fjármagna framkvæmdir og styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabanka Íslands.
Lækkun stýrivaxta úr 13 í 12% í gær var langt undir því sem vonast var eftir og viðbrögð hagsmunaaðila voru eftir því harkaleg. Þannig segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að það hafi valdið sér vonbrigðum að peningastefnunefnd skyldi ekki sjá sér fært að lækka vexti meira þó að allar forsendur til þess séu fyrir hendi.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, lýstu því báðir yfir að Seðlabankinn virtist kæra sig kollóttan um hvernig málin þróuðust á vinnumarkaði. Jafnvel er búist við að á fundi um stöðugleikasáttmálann kl. 10 í dag verði frekari viðræðum aflýst.