Úrslitastund í Karphúsinu

Frá fundarhöldum í Karphúsinu
Frá fundarhöldum í Karphúsinu Eggert Jóhannesson

Stór fundur milli samtaka launafólks og atvinnurekenda fer nú fram í Karphúsinu. Talið er víst að á fundinum fáist niðurstaða um það hvort viðræðum viðsemjenda á vinnumarkaði um launahækkanir bæði á almenna vinnumarkaðinum og hjá ríki og sveitarfélögum verði framhaldið. Áætlað er að fundurinn standi í um klukkustund.

Óvissa ríkir um viðræðurnar eftir að Seðlabankinn tilkynnti um 1% lækkun stýrivaxta í gærmorgun. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í kjölfarið að stýrivaxtalækkunin þýði að líklega lognist út allar kjaraviðræður því ekki sé hægt að hækka laun með stýrivexti svona háa.

Á vefsvæði Verkalýðsfélags Akraness spyr formaður félagsins hvers vegna íslensk stjórnvöld beiti sér ekki af fullri hörku fyrir því að keyra hér niður stýrivexti „þó ekki væri nema til þess eins að gera atvinnurekendum kleyft að standa við hóflega gerða kjarasamninga frá 17. febrúar 2008 og forða um leið átökum á íslenskum vinnumarkaði.“

Frekari frestun eykur á erfiðleika

Samninganefnd AFLs Starfsgreinafélags fundaði síðdegis í gær og sendi í kjölfarið frá sér ályktun. Í henni hvetur nefndin samninganefnd ASÍ að standa fast á kröfu um að áður umsamdar launahækkanir, þ.e. 13.500 kr. hækkunin komi öll til greiðslu 1. júlí. „Launafólk hefur á síðustu mánuðum tekið á sig verulegar byrðar í kjölfar efnahagskreppunnar og enn frekari frestun launahækkana verður til að auka á erfiðleika launafólks.“

Samninganefndin segir einnig að AFL muni í einu og öllu lúta niðurstöðu allsherjaratkvæðagreiðslu aðildarfélaga ASÍ og standa þétt saman með félögum innan sambandsins til að tryggja framgang hennar og treysta samstöðu innan hreyfingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert