Utanríkismálanefnd Alþingis hefur verið boðuð til fundar klukkan 17 í dag vegna Icesave-samninganna. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa í umræðum um fundarstjórn forseta þingsins í dag krafist þess að slíkur fundur yrði boðaður.
Forsætisráðuneytið segir, að gert sé ráð fyrir að viðræður við Breta og Hollendinga um lausn Icesave deilunnar verði haldið áfram fram á kvöld en þeim sé ekki lokið. Þess sé að vænta að forsætis- og fjármálaráðherra muni boða til blaðamannafundar um málið á morgun.
Ekkert þeirra mála, sem var á dagskrá þingsins í dag, komst til umræðu nema óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra í morgun vegna þess að þingmenn ræddu mestan hluta dagsins um fundarstjórn forseta.