Vextir í 9% til að byrja með

Fundað hefur verið í húsi ríkissáttasemjara í dag.
Fundað hefur verið í húsi ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Eggert

Til að hægt sé að ákveða framhald kjarasamninga þurfa vextir að lækka í 9% til að byrja með og vaxtamunur milli Íslands og evru-svæðis verði ekki meiri en 4% fyrir árslok 2011, að mati Samtaka atvinnulífsins. Viðræður um stöðugleikasáttmála halda áfram en skv. heimildum mbl.is er það m.a. í trausti þess að næsta vaxtaákvörðunardegi verði flýtt til 25. júní.

Í frétt á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins segir að reynt verði að skapa samstöðu um þær erfiðu ákvarðanir sem eru framundan og eyða óvissu um horfur í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Þar til niðurstaða þessara viðræðna verður ljós bíði viðræður um kjaramál.

„Komi til þess að SA ákveði að framlengja ekki kjarasamninga á grundvelli niðurstöðu þeirrar vinnu sem framundan er verður samningum sagt upp þann 30. júní,“ segir í frétt SA.

„Á fundinum í morgun kom skýrt fram að þau viðfangsefni sem við blasa, einkum í ríkisfjármálum, séu af slíkri stærðargráðu að þau verði aðeins leyst með samvinnu aðila á vinnumarkaði, ríkisstjórnar, stjórnarandstöðu og sveitarfélaga.

Til að hægt sé að taka ákvörðun um framhald kjarasamninga þurfa eftirfarandi mál að skýrast að mati SA:

  • Áform um endurreisn bankakerfisins verða að liggja fyrir.
  • Áherslur í ríkisfjármálum og áætlun til næstu þriggja ára um 150 milljarða króna niðurskurð verði ljósar.
  • Vextir lækki í 9% til að byrja með og vaxtamunur milli Íslands og evru-svæðis verði ekki meiri en 4% fyrir árslok 2011.
  • Setja þarf fram áætlun um afnám gjaldeyrishafta.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert