Smyglskútan Sirtaki er komin til eiganda síns í Belgíu og fjórmenningarnir sem sigldu henni utan eiga eftir að lifa lengi á ævintýrinu. Þeir lentu í vélarbilun og hrepptu flestar tegundir af veðri. Þeir fóru á kúrekatónleika í Orkneyjum og fengu endurgreidd hafnargjöld í Englandi.
Þeir voru ítrekað spurðir hvers vegna í ósköpunum Íslendingar væru að skila skútu sem með réttu ætti að gera upptæka og réðu uppgjafa lögregluþjón til verksins.
Lögregla lagði aðfaranótt sunnudagsins 19. apríl hald á um 109 kíló af fíkniefnum, sem talið er að hafi verið smyglað til landsins með belgísku skútunni Sirtaki. Um var að ræða amfetamín, maríjúana, hass og nokkur þúsund e-töflur. Fjórir menn hafa setið í gæsluvarðahaldi síðan vegna smyglsins, en það er eitt hið umfangsmesta sem komist hefur upp hér á landi.
Eigandi skútunnar vildi eðlilega fá hana sem fyrst aftur, enda aðalsiglingatíminn í Belgíu að hefjast. Hann hafði leigt skútuna í vikutíma, en mátti sjá af henni í tæpa tvo mánuði þegar lögreglan lét hana af hendi að rannsókn lokinni.
Eiríkur Beck, fyrrverandi lögreglumaður, var ráðinn til að sigla skútunni til Belgíu og fékk hann í lið með sér þrjá félaga sína, þá Pál Emil Beck, Ólaf Viggósson og Guðjón Sólmar Pétursson „Við komum úr ýmsum starfsgreinum en erum allir siglingaáhugamenn og kannski sérfræðingar hver á sínu sviði; í vél, siglingafræði og eldamennsku.“ segir Eiríkur.