Samkomulag íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga vegna Icesave-reikninganna gerir ráð fyrir að skilanefnd Landsbankans gefi út skuldabréf upp á tæplega 630 milljarða króna á núverandi gengi sem tryggt verður með veði í öllum eignum bankans í Bretlandi.
Upphæðin verður síðan notuð til þess að standa undir skuldbindingum vegna reikninganna.Til að þessi lausn á málinu verði að veruleika þarf samþykki Alþingis að liggja fyrir.
Í samkomulagi ríkjanna er ákvæði um að skilanefndin þurfi ekki að greiða af skuldabréfinu í sjö ár. Er um valkvætt ákvæði að ræða. Skilanefnd Landsbankans gæti því greitt lánið upp hvenær sem er ef hagstætt verð fengist fyrir eignir bankans. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins verður greitt inn á lánið mjög fljótlega því hluti rúmlega 300 milljóna punda á reikningi Landsbankans hjá Englandsbanka verður nýttur til að greiða af höfuðstól þess um leið og gengið verður formlega frá samkomulaginu.
Breskir og hollenskir sparifjáreigendur hafa þegar fengið innstæður sínar greiddar af þarlendum stjórnvöldum. Samkomulag ríkjanna gerir ráð fyrir að bresk stjórnvöld aflétti innan skamms frystingu á eignum Landsbankans í Bretlandi og mun skilanefnd bankans síðan sjá um að hámarka virði þeirra.
„Með þessu fyrirkomulagi er búið að tryggja ríkissjóði skaðleysi næstu sjö árin,“ segir heimildarmaður Morgunblaðsins sem unnið hefur að þessu máli. Hann bendir á að það sé hagkvæmara vegna vaxtanna að greiða af láninu sem fyrst ef aðstæður bjóða upp á slíkt. Þessi sjö ár séu hins vegar góður tími fyrir skilanefndina að hámarka verðmæti eignasafns bankans og takmarka þar með ábyrgð ríkissjóðs. Tímamarkið girði líka fyrir að selja þurfi eignir bankans á brunaútsölu.