Þistilfiðrildi við Látrabjarg

Þistilfiðrildið sem sást við Látrabjarg.
Þistilfiðrildið sem sást við Látrabjarg. mynd/Vífill Sverrisson

Á Hvallátrum við Látrabjarg hefur orðið vart við töluverðan fjölda þistilfiðrilda, sem er harla óvenjulegt þar um slóðir. Vífill Sverrisson, 13 ára áhugamaður um dýralíf og ljósmyndun, náði nokkrum slíkum og tók mynd af þessu fallega fiðrildi með útbreidda vængi, og vill gjarnan deila þessum fundi og mynd af fiðrildinu með lesendum blaðsins.

Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar kemur fram að um miðjan maí byrjaði mikill straumur þistilfiðrilda frá Suður-Evrópu norður eftir álfunni. Svo mikill var fjöldinn að menn höfðu aldrei fyrr orðið vitni að öðru eins.

„Þetta hátterni þistilfiðrilda er alvanalegt og hafa þau margsinnis náð til Íslands, tengt sambærilegu farflugi á meginlandinu ef vindar hafa veitt þeim hagstæðan byr undir vængi. Þistilfiðrildi sem mætt hafa svo snemma sumars hafa jafnvel verpt hér og náð að geta af sér nýja kynslóð síðsumars, en vetur lifa þau ekki af, segir á heimasíðuni. Fyrstu merki um þessa göngu norður á bóg sáust í Færeyjum 30. maí," segir Náttúrufræðistofnun.

Fiðrildin sáust fyrst í Garðabæ 18. maí, en síðan hafa þau m.a. sést við Reykjanesvirkjun, í Sandgerði og Reykjavík. Í Sandgerði voru tugir þeirra á ferð og með í för var eitt aðmírálsfiðrildi. Nú hafa fiðrildin skoðað Látrabjarg, vestasta odda landsins, og að sögn heimilisfólksins á Hvallátrum eru slíkar heimsóknir sjaldgæfar. Þó eru sögur af því að þar hafi sést aðmírálsfiðrildi á stríðsárunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert