Boða til fundar um greiðsluverkfall

Hagsmunasamtök heimilanna segjast ætla að boða til félagsfundar eins fljótt og auðið er þar sem m.a. verði rætt hvort farið verði í greiðsluverkfall þannig að afborgunum af lánum verði hætt, þær takmarkaðar eða dregnar í tiltekinn tíma.

Samtökin vilja einnig ræða hvort hvatt verði til uppsagna á kreditkortaviðskiptum og greiðsluþjónustu, innistæður verði teknar út eða fluttar, hvort hvatt verði til að sniðganga vörur og neysla verði takmörkuð við brýnar nauðsynjar og hvort auglýsa eigi hverjir teljist vinna gegn velferð heimilanna. Einnig vort boðað verði til opinberra mótmæla.

Í tilkynningu samtakanna segir, að ríkisstjórnin hafi ákveðið að hunsa með öllu skynsamlegar og hóflegar tillögur um leiðréttingu gengis- og verðtryggðra lána sem hafa rokið upp úr öllu valdi á brostnum forsendum. Í staðinn ætli stjórnvöld að þvinga fram ósæmandi
skuldaviðurkenningu á umræddum okurlánum og innheimta þau af fullri hörku. Slík framganga er riftun á gildandi samfélagssáttmála.

„Afstaða stjórnvalda í málinu er með öllu óskiljanleg og ber öll þess merki að sérhagsmuni skuli taka fram yfir almenna. Í því samhengi vekur  sérstaka athygli að ekki skuli liggja fyrir tímasett áætlun um afnám verðtryggingar þegar formenn beggja stjórnarflokka eru yfirlýstir andstæðingar hennar. Aðstæður eru nú með þeim hætti að ekki verður hjá því komist að grípa til  nauðvarnar til að
knýja fram tafarlausar úrbætur."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka