Eðlilegt að endurskoða kvótakerfið

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Júlíus Vífill Ingvarsson. mbl.is/Ómar

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarformaður Faxaflóahafna, segir eðlilegt að kvótakerfið verði endurskoðað í þeim tilgangi að um það megi ríkja nauðsynleg sátt meðal þjóðarinnar. Þetta kom fram í ræðu sem Júlíus Vífill flutti dag vegna hátíðarhaldanna á Sjómannadaginn.

„Ég hef tekið undir gagnrýni á kvótakerfi sem færði útgerðarmönnum sameiginleg verðmæti þjóðarinnar endurgjaldslaust til eignar og skipti auðlindinni á milli skilgreindra einstaklinga og fyrirækja. Ég hef einnig gagnrýnt frjálsa framsalið og eignfærslu kvótans í efnahagsreikningum fyrirtækja sem samanlagt mun nema um 200 milljörðum króna,“ sagði Júlíus Vífill.

„Mér finnst því eðlilegt að kvótakerfið sé endurskoðað í þeim tilgangi að um það megi ríkja nauðsynleg sátt meðal þjóðarinnar. Og enda þótt efnahagsaðstæður okkar valdi því að sú vinna verði að bíða um sinn má henni ekki verða ýtt til hliðar. Sú heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins þarf að fara fram og að því borði verða útgerðarmenn að koma með opnum hug. Viðskipta- og fjármálaumhverfið sem útgerðarfyrirtækin reyna að fóta sig í - líkt og önnur fyrirtæki landsins um þessar mundir - skapar þeim hins vegar engar forsendur til þess að takast á við þá miklu fyrningu veiðiréttar sem ríkisstjórnin hefur nú boðað.  Sú áhætta sem að er stefnt er gríðarleg og vegur ekki aðeins að undirstöðum eins atvinnuvegar heldur að undirstöðum heillar þjóðar,“ sagði hann ennfremur.

Hann segist gera þá kröfu til stjórnvalda að þau hafi yfirsýn sem nauðsynleg sé til að gera ekki vont ástand verra. Markmiðið verði að vera að efla þjóðarhag en ekki aðeins að ná í hnakkadrambið á þeim sem hafi farið illa að ráði sínu.

„Ef fyrna á 50 milljarða á næstu 5 árum munu mörg stór og mikilvæg fyrirtæki, jafnt fyrir dreifðar byggðir landsins sem og höfuðborgarsvæðið, standa uppi með neikvætt eigið fé og munu þar af leiðandi ekki verða rekstrarhæf -  verða gjaldþrota.  Óvissan sem þegar ríkir varðandi fyrningarleiðina hefur lamandi áhrif. Við búum við bankakerfi sem ekki hefur bolmagn til að þjóna atvinnulífinu og getur hvorki komið starfandi útgerðarfyrirtækjum til hjálpar né staðið við bakið á þeim sem hyggjast hefja útgerð með þeim fjárfestingum sem því fylgir. Þetta er því feigðarflan en í orðum sjávarútvegsráðherra og formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis í síðustu viku felast vonandi skilaboð um að sú stefna, sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar, verði endurskoðuð,“ sagði Júlíus Vífill.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert