Eðlilegt að endurskoða kvótakerfið

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Júlíus Vífill Ingvarsson. mbl.is/Ómar

Júlí­us Víf­ill Ingvars­son, borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins og stjórn­ar­formaður Faxa­flóa­hafna, seg­ir eðli­legt að kvóta­kerfið verði end­ur­skoðað í þeim til­gangi að um það megi ríkja nauðsyn­leg sátt meðal þjóðar­inn­ar. Þetta kom fram í ræðu sem Júlí­us Víf­ill flutti dag vegna hátíðar­hald­anna á Sjó­mannadag­inn.

„Ég hef tekið und­ir gagn­rýni á kvóta­kerfi sem færði út­gerðarmönn­um sam­eig­in­leg verðmæti þjóðar­inn­ar end­ur­gjalds­laust til eign­ar og skipti auðlind­inni á milli skil­greindra ein­stak­linga og fyr­ir­ækja. Ég hef einnig gagn­rýnt frjálsa framsalið og eign­færslu kvót­ans í efna­hags­reikn­ing­um fyr­ir­tækja sem sam­an­lagt mun nema um 200 millj­örðum króna,“ sagði Júlí­us Víf­ill.

„Mér finnst því eðli­legt að kvóta­kerfið sé end­ur­skoðað í þeim til­gangi að um það megi ríkja nauðsyn­leg sátt meðal þjóðar­inn­ar. Og enda þótt efna­hagsaðstæður okk­ar valdi því að sú vinna verði að bíða um sinn má henni ekki verða ýtt til hliðar. Sú heild­ar­end­ur­skoðun fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­is­ins þarf að fara fram og að því borði verða út­gerðar­menn að koma með opn­um hug. Viðskipta- og fjár­má­laum­hverfið sem út­gerðarfyr­ir­tæk­in reyna að fóta sig í - líkt og önn­ur fyr­ir­tæki lands­ins um þess­ar mund­ir - skap­ar þeim hins veg­ar eng­ar for­send­ur til þess að tak­ast á við þá miklu fyrn­ingu veiðirétt­ar sem rík­is­stjórn­in hef­ur nú boðað.  Sú áhætta sem að er stefnt er gríðarleg og veg­ur ekki aðeins að und­ir­stöðum eins at­vinnu­veg­ar held­ur að und­ir­stöðum heill­ar þjóðar,“ sagði hann enn­frem­ur.

Hann seg­ist gera þá kröfu til stjórn­valda að þau hafi yf­ir­sýn sem nauðsyn­leg sé til að gera ekki vont ástand verra. Mark­miðið verði að vera að efla þjóðar­hag en ekki aðeins að ná í hnakka­drambið á þeim sem hafi farið illa að ráði sínu.

„Ef fyrna á 50 millj­arða á næstu 5 árum munu mörg stór og mik­il­væg fyr­ir­tæki, jafnt fyr­ir dreifðar byggðir lands­ins sem og höfuðborg­ar­svæðið, standa uppi með nei­kvætt eigið fé og munu þar af leiðandi ekki verða rekstr­ar­hæf -  verða gjaldþrota.  Óviss­an sem þegar rík­ir varðandi fyrn­ing­ar­leiðina hef­ur lam­andi áhrif. Við búum við banka­kerfi sem ekki hef­ur bol­magn til að þjóna at­vinnu­líf­inu og get­ur hvorki komið starf­andi út­gerðarfyr­ir­tækj­um til hjálp­ar né staðið við bakið á þeim sem hyggj­ast hefja út­gerð með þeim fjár­fest­ing­um sem því fylg­ir. Þetta er því feigðarfl­an en í orðum sjáv­ar­út­vegs­ráðherra og for­manns sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­nefnd­ar Alþing­is í síðustu viku fel­ast von­andi skila­boð um að sú stefna, sem fram kem­ur í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar hvað þetta varðar, verði end­ur­skoðuð,“ sagði Júlí­us Víf­ill.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert