Hugmyndasamkeppni um skipulag gömlu hafnarinnar

Horft yfir Reykjavík og hafnarsvæðið.
Horft yfir Reykjavík og hafnarsvæðið.

Hafin er hugmyndasamkeppni um heildarskipulag gömlu hafnarinnar og Örfiriseyjar í Reykjavík á vegum Faxaflóahafna sf. Fram kemur í tilkynningu að þetta sé ein umfangsmesta samkeppni sinnar tegundar sem efnt hefur verið til hérlendis.

Júlíus Vífill Ingvarsson, stjórnarformaður Faxaflóahafna, opnaði samkeppnina formlega í ávarpi í tilefni Hátíðar hafsins á samkomu í Sjóminjasafninu Víkinni við Grandagarð. Hann sagði meðal annars að fagfólki og almenningi gæfist nú gullið tækifæri til að hafa áhrif  á þróun svæðis sem ætti sér einstakan sess í atvinnu-, menningar-, og byggingarsögu Reykjavíkur og landsins alls.

Hugmyndasamkeppnin er öllum opin og í tveimur hlutum. Í A-hluta er gert ráð fyrir þátttöku fagfólks og annarra sem uppfylla tiltekin skilyrði, í B-hluta er gert ráð fyrir  þátttöku almennings án nokkurra skilyrða. A-hluti samkeppninnar er í samvinnu við Arkitektafélag Íslands, að því er segir í tilkynningu.

  • Samkeppnislýsingu má nálgast á faxafloahafnir.is og á ai.is.
  • Frestur til að skila tillögum rennur út 6. október 2009 og gert er ráð fyrir að dómnefnd birti niðurstöður sínar í lok nóvember 2009.
  • Heildarverðlaun  verða fjórtán milljónir króna, þar af tólf milljónir króna fyrir A-hlutann en tvær milljónir króna fyrir B-hlutann.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert