Ef sókn í þorskstofninn við Ísland hefði verið svipuð árið 2008 og hún var í byrjun aldarinnar hefði aflinn orðið um 250 þúsund tonn. Hafrannsóknastofnun segir, að slíkur afli myndi hins vegar fljótt leiða til þess að bæði veiði- og hrygningarstofn þorsks minnkaði hratt og yrði framleiðslugetu stofnsins þar með stofnað í hættu.
Heildarafli úr íslenska þorskstofninum árið 2008 var 147 þúsund tonn samanborið við rúm 170 þúsund tonn árið 2007 og er þetta lægsti ársafli í nærri 70 ár.
Hrygningarstofn þorsks hefur farið vaxandi og er nú metinn um 220 þúsund tonn en var aðeins um 120 þúsund árið 1993 þegar hann var í sögulegu lágmarki. Fram kemur í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ástand nytjastofna, að upplifun margra sjómanna sé að nú sé hægt að veiða mun meira af þorski en Hafrannsóknastofnunin leggur til.
„Það er reyndar afar mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að megin tilgangur farsællar fiskveiðistjórnunar er að tryggja hagkvæmar fiskveiðar og skynsamlega nýtingu árganganna, en einnig að lágmarka hættu á nýliðunarbresti af völdum of þungrar sóknar. Þessu fylgir að með bættum árangri í stjórn veiðanna verður meira af fiski á miðunum og háværari krafa um að þá sé tímabært að auka við aflaheimildir," segir í skýrslu Hafrannsóknastofnunar.