Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í ræðu sinni í tilefni sjómannadagsins í Reykjavík í gær að eitthvað væri að, þegar menntaskólakrakkar segðu að sjávarútvegurinn skipti gríðarlega miklu máli fyrir íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf í framtíðinni en samt vildi aðeins lítill hluti þessara krakka starfa við hann eða fara í nám sem honum tengdist. Þessi höfuðatvinnugrein ætti greinilega við ímyndarvandamál að stríða hjá ungu fólki.
Sjávarútvegsráðherra lagði út frá könnun sem Háskólinn á Akureyri lét gera hjá menntaskólanemum og greint var frá í liðinni viku. Hann sagði að stjórnendur í atvinnuveginum hlytu að taka þessi skilaboð mjög alvarlega. Ein skýring gæti verið sú að þessar hörðu deilur sem hefðu staðið meðal þjóðarinnar um stjórn fiskveiða og ráðstöfun aflaheimilda í meira en tvo áratugi ættu hér einhvern hlut að máli og yllu því að ungt fólk vildi síður takast á við verkefni og möguleika sem svo sannarlega væru í þessari atvinnugrein. Ráðherra rifjaði upp að hann hefði skipað vinnuhóp til þess að fara yfir þessi mál og leggja fram valkosti til úrbóta sem sátt gæti orðið um.
Sjávarútvegsráðherra ítrekaði mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðir og atvinnulíf í landinu. Miklar væntingar væru við hann bundnar í sambandi við öflun gjaldeyris og hann myndi leggja sig allan fram við að treysta og bæta ímynd greinarinnar þannig að höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar hefði þann sess að ungu fólki væri ekki aðeins ljóst mikilvægi hans heldur hefði einnig löngun til þess að starfa og takast á við þau tækifæri sem hann byði upp á.