ESA gæti tekið neyðarlögin til skoðunar

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. Eggert/Eggert

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag að verið geti að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)  taki til skoðunar hvort Íslendingar hafi farið í einu og öllu eftir ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, m.a. við setningu neyðarlaganna og gjaldeyrishaftanna.  

Gylfi sagði, að stjórnvöld væru búin undir slíka rannsókn en hafi ekki gripið til neinna aðgerða annarra en undirbúa slíkt. 

Gylfi var að svara fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, sem vildi vita hvort lánardrottnar gömlu bankanna hefðu skrifað fulltrúum viðkomandi þjóða hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og einnig lagt fram formlega kvörtun hjá Eftirlitsstofnun EFTA yfir framgöngu íslenskra stjórnvalda í sinn garð. Sagðist Guðlaugur hafa heyrt að afrit af þessum bréfum hefðu borist ríkisstjórninni.

Ráðherra sagði að sér væri ekki kunnugt um að formleg erindi hefðu borist frá kröfuhöfum. Hann sagðist vita, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði rætt við fulltrúa lánardrottna en enginn þrýstingur hefði komið á Íslendinga eftir þeirri leið og ekki heldur frá Eftirlitsstofnun EFTA.

Gylfi sagði hins vegar ljóst, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggi áherslu á að gætt verði jafnræðis meðal kröfuhafa og ekkert sé nýtt í því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert