Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði að sér væri, sem fulltrúa í utanríkismálanefnd Alþingis, gróflega misboðið þegar fjármálaráðherra stígi í ræðustól og sveifli þar skjali, sem sem nefndinni hefði verið neitað um aðgang að í allan vetur.
Var Bjarni þar að vísa til þess, að Steingrímur sagði að til væri undirritað minnisblað eftir viðræður íslenskra og hollenskra embættismanna í október sl. um þá niðurstöðu, sem þá fékkst.
Bjarni sagði, að það væri ekki boðleg skýring af hálfu Steingríms, að það samkomulag hafi bundið hendur íslenskra stjórnvalda. Hin svonefndu sameiginlegu viðmið væru til vitnis um að bresk og hollensk stjórnvöld höfðu horfið frá þessu minnisblaði.
„Um hvað voru Hollendingar að ræða um við okkur í allan vetur ef búið var að gera samninginn? spurði Bjarni.
Hann gagnrýndi það samkomulag, sem nú hefur verið gert um Icesave. Sagði hann m.a. að öll óvissan um þróun efnahagsmála og upphæða væri Íslendinga megin.