Fréttaskýring: Grundvallarspurning um mann og náttúru

Helstu hluthafar í ORF Líftækni, sem sótt hefur um leyfi til tilraunaútiræktunar á erfðabreyttu byggi, eru Valiant Fjárfestingar með 25%, Landbúnaðarháskóli Íslands með hátt í 12%, Björn Lárus Örvar og Einar Mäntylä með 5% hvor og svo á fjórða tug minni hluthafa. Búið er að leggja á annan milljarð króna í fyrirtækið og því um miklar upphæðir að tefla. Á sama tíma eru m.a. rannsóknir LbhÍ notaðar til rökstuðnings með umsókninni. Því er spurt, er mark takandi á vísindaráðgjöf hluthafa í sjálfu fyrirtækinu?

Þessa gagnrýni segir Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF, ósanngjarna og nánast árás á starfsheiður vísindamanna sem komu að rannsóknum LbhÍ. „Þeir hafa engra hagsmuna að gæta og eiga ekkert í fyrirtækinu. Það sem skiptir þá mestu máli er að ekki falli blettur á þeirra fagþekkingu.“ Eignarhluturinn sé þannig tilkominn að við upphaf verkefnisins, árið 2001, hafi það verið framkvæmt á rannsóknarstofu skólans. Sú þjónusta og kostnaður sem hann innti af hendi hafi verið metinn til eignar í fyrirtækinu. Síðan þá hafi skólinn ekki lagt til meira fé og hlutur hans stöðugt minnkað. „Jú, við hefðum kosið annað eignarhald og að skólinn kæmi kannski með öðrum hætti að málinu,“ segir Björn. Hins vegar sé erfitt að byggja upp nýtt þekkingarfyrirtæki án nokkurrar aðkomu háskóla á Íslandi. Þetta sé því afleiðing þeirra aðstæðna sem fyrirtækinu voru búnar í upphafi.

Einnig er gagnrýnt að íslensk löggjöf um erfðabreyttar lífverur sé úrelt. Tilskipun ESB um erfðabreyttar lífverur frá 2001 hefur enn ekki verið lögfest hér, en frumvarp þess efnis er nú til meðferðar á Alþingi. Björn segir ORF starfa eftir gildandi reglum hverju sinni, en hin nýja tilskipun muni ekki breyta miklu gagnvart fyrirtækinu. Þar sé fyrst og fremst hert á reglum um markaðsleyfi og sett inn stíft áhættumat fyrir veitingu þeirra. Með markaðsleyfum á hann við leyfi til að nota erfðabreyttar plöntur í fóður og matvæli. Það er ekki tilgangurinn hjá ORF, heldur framleiðsla próteina fyrir lyfjagerð og iðnaðarnot.

Þess ber þó að geta að hið nýja frumvarp bætir sérstökum kafla við lög um erfðabreyttar lífverur, sem gerir auknar kröfur til Umhverfisstofnunar um að upplýsa almenning um leyfisveitingar.

Hvað má eiginlega í ESB?

Þarna segir Björn að blandað sé saman ólíkum hlutum. Markaðsleyfi séu allt annað en það sem ORF sækist eftir. Á markaðsleyfi sé útsæði plöntunar falt hverjum þeim sem vilji rækta hana til matvælaframleiðslu. Slíkt sé vissulega bannað víða og aðeins leyft með maís í ESB. Hins vegar hafi 104 tilraunaleyfi eins og það sem ORF sækist eftir verið veitt í ESB, þar sem hin nýja tilskipun er í gildi, á þessu ári.

Vefur framkvæmdastjórnar ESB staðfestir þetta. Þar sést að fjöldi leyfa hefur verið veittur á árinu, flest vegna maís en einnig vegna byggs, kartaflna, sykurrófna, bómullar og fleiri tegunda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert