„Í haust, þegar ímynd Íslands hrundi, þá langaði mig til þess að gera gagn. Þess vegna var ég svo forhertur að ég tók að mér þetta svakalega verkefni ásamt samstarfsmönnum, eitt stærsta efnahagslega verkefni sem Ísland hefur nokkur tímann glímt við, segir Svavar Gestsson, sem stýrði samninganefnd íslenska ríkisins vegna Icesave-reikninganna. Samkomulag náðist á milli Íslands annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar á föstudag.
Svavar, sem var sendiherra í Danmörku, segir að upplifun þeirra Íslendinga sem búa erlendis af hruninu hafi verið svakaleg. „Ekki síður okkur sem vorum í Danmörku, en margir sem búa þar eru að reyna að lifa á íslesnku tekjum. Þetta eru til dæmis ellilífeyrisþegar og einstæðar mæður sem fá yfirfærða peninga í íslenskum krónum sem urpu afar fáar danskar krónur við hrunið. Við vorum að glíma við félagslegan vanda hjá þúsundum einstaklinga. Það reyndi mikið á okkur öll sem þarna vorum.
Þá kom upp í huga minn spurningin, hvað með sjálfstæði Íslands, hrundi það? Hvað er eftir af því þegar landið er ekki lengur efnahagslega sjálfbært? Sjálfsmynd Íslands veiktist mjög alvarlega á þessum tíma.“
Viðræður undir forystu Svavars hófust um miðjan mars. „Þegar ég kem að þessu verki þá stöndum við frammi fyrir þeirri nánast óleysanlegu gátu að upphæðirnar sem þarf að greiða eru til staðar, en geta Íslands til að greiða þær er engin. Hver einasta króna sem við hefðum tekið úr ríkissjóði til að greiða fyrir þetta, hún hefði verið tekin að láni. Það er hins vegar ekki til neinn sem vill lána okkur í dag. Þetta hefði því þýtt seðlaprentun, verðbólgu og fallandi gengi.“
Fyrri viðræðunefndin, undir forystu Baldurs Guðlaugssonar, hafði reifað ýmsar hugmyndir um hvernig ætti að gera skuldina upp. Í desember á síðasta ári var Bretum og Hollendingum boðið að taka yfir dótturfélag Landsbankannn í London, upp í skuldina, en þeirri hugmynd var hafnað. „Þeir sögðu að fjármálaráðuneytið þeirra gæti ekki staðið í bankarekstri. Það er mikilvægt að hafa í huga að þá hafði ekki verið gert upp við þýska sparifjáreigendur sem voru með innstæður á EDGE-reikningum Kaupþings. Því voru Þjóðverjar með í þeim viðræðum. Þegar þrjú svona öflug ríki leggjast saman andspænis litlu ríki í alþjóðasamfélaginu er það mjög þungur róður,“ segir Svavar. Hann segir að það hafi skipt mjög miklu máli fyrir árangur viðræðnanna að skilanefnd Kaupþings hafi náð að gera upp við þýska sparifjáreigendur án aðkomu íslenska ríkisins.
Ákveðin tímamót áttu sér stað hinn 15. apríl síðastliðinn þegar formenn samninganefndanna funduðu á heimili Svavars í Kaupmannahöfn. „Það var í raun úrslitafundur í málinu því þá datt okkur í hug þessi leið sem var farin, að ábyrgðarröðin yrði með þeim hætti að ríkið væri aftast, á eftir Landsbankanum og Tryggingasjóði innstæðueigenda,“ segir Svavar.
Leiðin sem Svavar talar um varð síðar þekkt sem „Landsbanka-aðferðin.“ Hún snýst í raun um að Tryggingasjóður innstæðueigenda sé útgefandi skuldabréfs fyrir allri upphæðinni (um 650 milljarðar króna), Landsbankinn beri ábyrgð á greiðslum sjóðsins og íslenska ríkið loks ábyrgð á greiðslum Landsbankans. Greiðslutími lánsins skiptist síðan upp í tvö tímabil: eitt sjö ára og annað til átta ára.
„Á fyrstu sjö árunum borgar Landsbankinn, eða eignasafn hans, höfuðstólinn niður. Hann lækkar stöðugt á þeim tíma. Hann byrjar í 650 milljörðum króna, en ef áætlanir ganga eftir þá verður hann kominn niður í 170 milljarða króna í lok þessa sjö ára tímabils. Á þessum sjö árum fer ekki ein króna úr ríkissjóði í þessar greiðslur.“ segir Svavar. Við þetta komist Íslendingar í skjól frá því efnahagslega fárviðri sem geysi úr öllum áttum í heiminum.
„Við komum hagkerfinu í skjól í sjö ár í miðri kreppunni. Skjól sem er vonandi hægt að nota til að gera eitthvað af viti. Í öðru lagi er mikilvægt að hafa í huga að þessi ákvörðun opnar fjármálaheiminn aftur fyrir Íslandi. Þegar að frystingunni verður aflétt [hinn 15. júní], þegar Ísland fer af hryðjuverkalista, opnast hinn alþjóðlegi fjármálaheimur að nýju.“
Hann segir að í þriðja lagi muni þetta styrkja gengi íslensku krónunnar og að það hafi gætt ákveðins misskilnings hjá sumum þingmönnum sem hafi haldið því fram að samkomulagið kæmi til með að veikja gengið. „Allar þessar eignir Landsbankans eru í erlendum gjaldeyri og verða nýttar til að greiða skuldir í erlendum gjaldeyri. Þær koma því aldrei til Íslands.“
Þegar umrædd sjö ár eru liðin þá bætast við höfuðstólinn vaxtagreiðslur vegna þessarra ára, en þær eru 5,5 prósent á höfuðstól hvers árs. Svavar segir að þar verði örugglega um mjög háar upphæðir að ræða.
„Ef sú upphæð verður til dæmis 180 milljarðar króna þá erum við með 350 milljarða króna fjall sem þarf að takast á við árið 2016. Það fjall eigum við síðan að greiða niður með átta jöfnum afborgunum. Það er ekki víst að ríkið þurfi að byrja að greiða af bréfinu fyrr en seint á þeim tíma, því við gerum ráð fyrir að það verði enn eftir eignir frá Landsbankanum eftir þetta ásjö ára tímabil. Þegar þær eignir eru uppurnar, þá kemur að því að ákveða með hvaða hætti ríkissjóður greiðir niður það sem eftir stendur. Það gæti því orðið á tímabilinu 2020 til 2023. Þá kemur annað atriði til skjalanna. Strax og íslenska ríkið getur fengið hagstæðari lán á alþjóðlegum mörkuðum þá getum við endurfjármagnað þetta lán.
Ég spái því að þetta verði gert. Í lánasamningunum stendur líka að þó að Landsbankinn hryndi og ekkert yrði til á fyrri sjö árunum þá er ekki hægt að ganga að okkur á því tímabili. Við verðum í algjöru skjóli, annaðhvort af eignum Landsbankans eða af samningsákvæðum á þessum sjö fyrstu árum. Það verður aldrei gengið á okkur þann tíma. [...] Það stórkostlega við þessa niðurstöðu er að ekki þarf að loka einu einasta sjúkrarúmi eða einni einustu skólastofu næstu sjö árin fyrir þessa lausn. Það þarf ekki að skerða hár á höfði velferðarkerfisins næstu sjö árin
Hann segir að það hafi verið gríðarlega mikilvægt vegna annarra skulda sem liggja á ríkissjóði að málið yrði afgreitt með þessum hætti. „Þetta er líka mikilvægt fyrir lánshæfi ríkisins því eftir því lægri upphæðir hvíla á ríkinu því skárra verður það mat. Í því að ábyrgðin hvíli á Tryggingarsjóði og Landsbankanum felast verðmæti sem birtast í lánskjörum Íslands,“ segir Svavar.
Hann segir að með þessum hætti sé ábyrgð ríkissjóðs í reynd takmörkuð. Hann segir að það hafi tekið langan tíma að útskýra fyrir Bretum og Hollendingum hvernig þetta yrði útfært.
„Ég ætla ekki að lýsa fyrir ykkur öllum þeim fjölda lögfræðinga í þremur löndum sem kom að þessu máli. Lögfræðingar halda alltaf það sé best að þeir tali saman innbyrðis sem er algjör misskilningur því stundum vita þeir ekkert hvað þeir eru að tala um. Í staðinn var árangursríkast að ræða við þá sem bjuggu til aðferðina, í þessu tilviki okkur Indriða. Við smíðuðum þessa aðferð sem að lokum varð niðurstaðan og kemur tiltölulega vel út fyrir Ísland. Indriði var auðvitað algjör klettur í þessum viðræðum öllum,“ segir Svavar.
Vextirnir á láninu hafa verið gagnrýndir fyrir að vera of háir. Aðspurður hvað réttlæti þessa vexti segir hann að í upphafi samningaviðræðna hafi Bretar og Hollendingar gert kröfu um 250 punkta álag. „Við náðum þeirri tölu verulega niður. Þetta er til þess að ná yfir kostnað og áhættu hjá ríkjunum. Þetta er mjög algengt í lánasamningum en auðvitað er hægt að segja að það réttlæti þetta ekki.“
Sú vaxtaprósenta sem fyrst var nefnd, 6,7 prósent var rædd sem hluti af bráðabirgðasamkomulagi við Hollendinga, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Í fyrstu var jafnframt gert ráð fyrir að því íslenska ríkið eitt og sér myndi bera ábyrgð á láninu og það yrði til 10 ára á 6,7 prósent vöxtum. Svavar segist að nokkru leyti bundinn trúnaði hvað þetta varðar. „Ég get hins vegar sagt það að þessar tölur frá því í vetur voru að anda ofan í hálsmálið á mér alveg til síðustu stundar í þessum samningaviðræðum. Það er ósanngjarnt að bera þessar tölur, 5,5 prósent, saman við breytilega vexti á skammtímalánum í London. Það villir um fyrir fólki. Þeir vextir sem nú er samið um eru lægstu föstu vextir frá því í síðari heimstyrjöld.“
Lykilþáttur í samkomulaginu er að eignir Landsbankans í London verði fyrst notaðar til að greiða af láninu áður en að ríkið kemur að greiðslu þess. Svavar segir að þær séu miklar. „Þetta eru að miklu leyti skuldir breskra fyrirtækja við Landsbankann. Síðan eru þarna til dæmis eignir Baugs sem skilanefndin er búin að taka yfir. Okkar mat miðar við að þessar eignir dugi fyrir 75 prósent af höfuðstólnum. Skilanefndin sjálf reiknar með enn betri endurheimt og erlend endurskoðendafyrirtæki hafa talað um allt að 95 prósent endurheimt. Við miðum við 75 prósent til að vera varkár.“
Þrátt fyrir að eignir Landsbankans í Bretlandi, sem eru fyrst og fremst eignarsöfn, hafi verið frystar þá hafa skuldunautar bankans samt sem áður greitt af lánum sínum. Þær greiðslur hafa legið vaxtalausar inni á reikningi hjá Seðlabankanum í Bretlandi, en samtals nema þær 230 milljónum punda. Svavar segir að samninganefndin hafi auðvitað gert þá kröfu að vextir yrðu greiddir af þessari upphæð. „Það er satt að segja alveg fáránlegt að það hafi ekki verið gert. Það voru allskyns hlutir eins og þessir sem við drógum með okkur inn í þessa umræðu til að styrkja okkar málstað. við tefldum líka fram frystingunni á eignunum sem rökum í málinu. Þeir telja sig hafa veitt okkur afslátt í þeim kjörum sem þeir veittu okkur, meðal annars vegna þessarra raka.
Svavar nefnir gagnrýni Birgittu Jónsdóttur alþingismanns sem sagði að samkomulagið væri leið inn í fátækt. „Ég segi að þetta samkomulag sé leiðin út úr fátækt og ánauð. Við erum núna að byrja að endurreisa efnahagslegt sjálfstæði Íslands sem hrundi fyrir níu mánuðum síðan.
Strangar viðræður áttu sér stað milli Fjármálaeftirlitsins og breskrar systurstofnunar þess (FSA) um að færa Icesave-reikningana í dótturfélag og flytja þar með ábyrgðina af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og íslenska ríkinu. Aðspurður um ábyrgð Breta og Hollendinga sjálfra á Icesave-reikningunum, því um leyfisskylda starfsemi hafi verið að ræða, segir Svavar að þetta hafi verið notað af samninganefndinni í viðræðunum. „Þetta var notað og misbeiting Bretanna á hryðjuverkalögunum. Þetta voru vopn í okkar höndum.
Svavar segir að það harkalega högg sem fjármálakerfi á Íslandi tók hafi vegið þungt þegar Ísland náði ekki kjöri í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. „Sömu daga og þetta var að hrynja vorum við að reyna að sannfæra fólk um að kjósa okkur. Við höfðum tiltölulega góða möguleika að komast inn. Það var kosið 14. október. Ég var mættur til New York 4. október og síðan komu fyrirsagnirnar, Ísland á hausnum. Þetta skipti gífurlegu máli. Við vorum beinlínis að tapa atkvæðum fyrir framan augun á okkur.
Svavar segist ekki hafa rætt mikið við Baldur Guðlaugsson, forvera sinn í starfi. „Ég hitti hann og við áttum þriggja tíma samtal á skrifstofu minni í Kaupmannahöfn um aðdraganda málsins,“ segir hann.
Svavar segist hafa haft frábært fólk með sér í nefndinni, en í henni voru Páll Þórhallsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu, Indriði H. Þorláksson, settur ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Áslaug Árnadóttir, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins, og Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða og markaðssviðs Seðlabanka Íslands. Aðstoðarmaður Svavars í allri þessari vinnu var Huginn Freyr Þorsteinsson.
„Þetta var teymið og ég verð að segja alveg eins og er að það er eins og fimmfaldur happdrættisvinningur að hafa þetta fólk því þetta eru svo öflugir og duglegir einstaklingar sem kunna vel sína hluti,“ segir Svavar.
Í viðræðunum naut nefndin aðstoðar frá lögmannsstofum í Brussel og Lundúnum. Svavar segir að á endanum hafi hins vegar aðstoð íslensku sérfræðinganna vegið þyngst. „Við vorum með hóp af fólki úr utanríkis-, viðskipta- og forsætisráðuneytinu, og íslenskum lögmannsstofum. Góða lögfræðinga. Ég er stoltur af þessu fólki, þetta eru frábærir einstaklingar. Ef Ísland ætlar að sækja um aðild að ESB erum við með nóg af fólki til að kljást við það. Það fyllir mann bjartsýni. Það skiptir miklu máli við að ná lausn í málinu og að semja fyrir Ísland að eiga öflugan stuðning í fyrsta lagi Steingríms fjármálaráðherra sem skipaði nefndina, en ekki síður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra og Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra,“ segir Svavar.
Hvers vegna var svona mikil áhersla lögð á það að ljúka þessu máli núna?
„Ég var nú eiginlega bara orðinn leiður á því að hafa þetta hangandi yfir mér,“ segir Svavar og hlær. Hann segir að ekki hafi verið neinn þrýstingur á að ljúka málinu á þessum tímapunkti. „Eftir fundinn í Kaupmannahöfn [um miðjan apríl innsk.blm] vorum við eiginlega tilbúin með þessa lausn. Síðan tók langan tíma að útskýra þetta fyrir þeim [Bretum og Hollendingum]. Síðan gátum við neglt niður þessar dagsetningar á fundum hérna í Reykjavík, þá var þetta komið. Það var enginn að reka á eftir okkur. Það var einhver að ræða um að þetta yrði að gerast strax því vaxtalækkunin hefði bara verið ein prósenta, en þessi fundur var ákveðinn fyrir löngu síðan,“ segir Svavar. Hann segir að á síðustu metrunum hafi viðræðurnar aðallega snúist um vaxtafjárhæðina og tímalengd lánsins.
Skiptar skoðanir eru um hvort íslenska ríkið eigi yfirleitt að ábyrgjast nokkuð vegna reikninganna. Svavar segir það enda liggja fyrir að regluverk Evrópusambandsins (ESB) sé mjög ófullkomið þegar kemur að innstæðutryggingum. Íslendingar hafi þó tæplega átt neitt val. „Öll aðildarríkin að Evrópska Efnahagssvæðinu (EES), öll Norðurlöndin, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF). Allir þessir aðilar voru sammála um að við ættum að standa við þessa skuldbindingu okkar. Við vorum fjarska ein í heiminum á þessari stundu. Það hefði verið útilokað að virða ekki vilja alþjóðasamfélagsins. Þegar seðlabankastjóri [Davíð Oddsson innsk.blm] kom fram í fjölmiðlum og sagði, „við borgum ekki,“ þá var það í raun ekkert skrýtin afstaða miðað við þær aðstæður sem uppi voru. Ég er í raun sammála þeirri afstöðu en það kom í ljós að leiðin var ekki fær. Spurningin var aldrei hvort við gerðum það, heldur hvernig við gerðum það.“
Mikið hefur verið rætt um það að Bretar og Hollendingar hafi beitt áhrifum sínum innan IMF gegn Íslendingum í þessu máli. Aðspurður um hvort að nefndin hafi fundið fyrir því þá svarar Svavar ekki afdráttarlaust. „Ég mun greina nákvæmlega frá því síðar hvernig þetta gerðist. Ég get þó sagt að á lokasprettinum var það stuðningur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við okkar lausn sem skipti verulegu máli, en ekki öfugt. Það var auðvitað allt undir. Það var allt skjálfandi og titrandi hér fyrr í vetur að mér skilst, líka EES-samningurinn, þó ég kunni þá sögu ekki nákvæmlega. Við stóðum einfaldlega frammi fyrir tveimur leiðum. Annars vegar leið A, sem snérist um að ná sátt við alþjóðasamfélagið. Hins vegar var leið B, sem var að brjóta sig frá því. Þá hefði hættan verið sú að Ísland myndi einangrast og þá held ég að fátæktin og erfiðleikarnir hefðu orðið mun sárari en ella.“
Aðspurður um hvort að hann hafi fengið innsýn í hvað hefði gerst ef Íslendingar hefðu valið leið B segir Svavar það aldrei hafa verið valmöguleika frá því að hann kom að viðræðunum. Því hafi sú leið aldrei verið rædd.
„Það lá fyrir samþykkt Alþingis og ríkisstjórnarinnar að við ættum að fara leið A. Að við ættum að gera upp þessa skuldbindingu með einum eða öðrum hætti. Ég tók við verkinu á þeim forsendum. Að neita að borga var ekki í þeim kortum sem umboð þessarrar nefndar byggði á. Hvað mér finnst í þessum efnum er algjört aukaatriði. En ég get þó sagt að ég held að við höfum ekki átt neinn annan kost en að klára þetta mál Þegar Bretar settu Ísland á hryðjuverkalistann og frystu eignir Landsbankans þá kviknaði rautt ljós á Íslandi á öllum heimskortum og öllum kauphöllum. Það rauða ljós þýddi „ekki skipta við Ísland.“
Samkvæmt samkomulaginu verða eignir Landsbankans í Bretlandi affrystar mánudaginn 15. júní næstkomandi. Svavar telur skilaboðin sem það muni senda alþjóðasamfélaginu ekki síður mikilvæg en aðgengi að eignunum. „Þá mun ljósið breytast úr rauðu í grænt. Það verður orðið í lagi að skipta við Ísland og því fylgir stórkostleg breyting, sérstaklega fyrir íslenskt efnahagslíf sem hefur verið svelt svo lengi. Ég er til dæmis viss um að gengið muni styrkjast mjög fljótlega.“
Svavar segir að Bretar beri ábyrgð sjálfir og þeir axli hana að vissu leyti. „Þeir eru búnir að gera upp við alla sína sparifjáreigendur. Við gerum síðan upp við þá upp að þessum 20,887 evrum, þeir borga allt fyrir ofan það. Við borgum 2,2 milljarða punda en þeir borga 2,4 milljarða punda. Það er alveg ljóst að þeir eru í sjálfu sér að taka heilmikið á sig. Ég vorkenni þeim ekki en þetta er veruleiki sem Ísland þarf að horfast í augu við.“
Svavar segir það átakanlegt að heyra sögur sparifjáreigenda sem áttu innstæður á Icesave-reikningunum. Hann fyllist reiði við tilhugsunina. „Icesave-reikningar í Bretlandi og Hollandi voru 344 þúsund. Þetta voru sveitarfélög og góðgerðarfélög. Margt af þessu fólki hefur komið að máli við mig í þessu ferli. Það er nístandi að heyra það tala um þessa hluti og þann skaða sem þarna hefur orðið. Um er að ræða góðgerðarfélög sem voru að safna fyrir spítölum fyrir hjartveik börn, svo dæmi sé tekið. Slóðinn, sem þetta hræðilega mál skilur eftir sig, er úti um allt.“
Fjölmargir, þar á meðal Stefán Már Stefánsson lagaprófessor, hafa gagnrýnt harðlega að íslenska ríkið sé að taka ábyrgð á Icesave-reikningunum.
Svavar segir að hann skilji þá gagnrýni vel.
„Það voru bankar hér á Íslandi sem voru orðnir tíu sinnum stærri en hagkerfið, samt störfuðu þeir samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins. Það er ekki hægt að segja að þeir hafi brotið þær tilskipanir í sjálfu sér. Hvernig áttum við að taka á þessu? Áttum við að gera það með betra Fjármálaeftirliti? Já. Áttum við að gera það með betri Seðlabanka? Já, en hversu gott hefði eftirlitið þurft að vera og hversu góður hefði Seðlabankinn þurft að vera til að stöðva þetta? Höfðu þessar stofnanir úrræði til að stöðva þennan vöxt bankanna? Átti að segja að enginn banki mætti vera stærri en þjóðarframleiðslan? Það hefði ekki verið samkvæmt EES-samningnum.
Veruleikinn er sá að það viðskiptafrelsi sem fólst í EES-samningnum var of mikið fyrir þetta land nema því hefði fylgt öflugri eftirlitsaðgerðir. Það þýðir einfaldlega að ESB þarf að endurskoða sínar reglur,“ segir Svavar.
Svavar segir niðurstöðuna að vissu leyti vera pólitíska. „Það voru allir þeirrar skoðunar að réttast væri fyrir okkur að semja um þessa reikninga. Það var ekkert land sem studdi okkur í því að virða þessar skuldbindingar að vettugi. Þannig séð er niðurstaðan pólitísk því allt hið pólitíska umhverfi sem við erum hluti af lagði áherslu á þessa lausn. Íslensk stjórnvöld hafa ekki ákveðið að segja sig úr því pólitíska umhverfi sem við erum í. Fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn eru sammála um að við séum hluti af þessu pólitíska umhverfi. Ég held að athugasemdir Stefáns Más, sem ég hef kynnt mér vandlega, væru réttar ef um væri að ræða aðstæður þar sem einn banki væri farinn á hliðina og Tryggingarsjóður innstæðueigenda hefði ekki bolmagn eða getu til að bjarga honum. Hér var það hins vegar allt hagkerfið sem hrundi.“
Svavar segir að ef reikningarnir hefðu ekki verið gerðir upp þá hefði allt innstæðutryggingakerfið í Evrópu hugsanlega hrunið. „Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist,“ segir Svavar.
Meðan á viðræðunum við Breta og Hollendinga stóð ræddu embættismenn landanna um ýmislegt fleira en Icesave-reikningana. Svavar staðfestir að rætt hafi verið við Breta um aðstoð við að upplýsa um hugsanleg eignaundanskot Íslendinga á Jómfrúreyjum.
„Við töluðum um það allt en um það get ég ekki sagt margt. Bretar samþykktu að aðstoða okkur við að ná þeim upplýsingum sem við þurfum. Þetta er eitt af því sem fjármálaráðuneytið mun vinna nánar. Fundur Össurar Skarphéðinssonar með David Miliband, utanríkisráðherra Breta, skipti mjög miklu máli í þessu ferli. Ég fór fyrst á fund í breska fjármálaráðuneytinu, hinn 30. mars sl. og átti langan fund með helsta samningamanni Breta, Gary Roberts. Þar kynnti ég þessa Landsbanka-aðferð fyrir honum og honum leist mjög illa á hana. Á sama tíma var Össur á fundi með með Miliband og kynnti fyrir honum þessa leið. Það var greinilegt að breska utanríkisráðuneytið vildi fara þá leið sem var árangursríkust, þeim var alveg sama um tegundina.
[Eftir fund Össurar og Miliband] var hægt að taka þetta úr þessum fasa og á nýtt stig. Utanríkisráðuneytið hjálpaði okkur að víkka myndina. Og ég býst við því að utanríkisráðuneytið muni halda viðræðum við Breta um samstarf á ýmsum sviðum áfram. Samstarf um upplýsingagjöf á sviði fjármála fellur þar undir,“ segir Svavar. Hann segir að á síðustu metrunum hafi íslenska nefndin átt viðræður við Hollendinga um svipaða hluti, þ.e upplýsingagjöf um skattaskjól.
Þegar Svavar er spurður hvernig þessi leið sem Landsbankinn fór í fjármögnun sinni, að safna innlánum erlendis, horfi við honum eftir að hafa verið í samninganefndinni segist hann fyrst og fremst reiður.
„Ég er ofsalega reiður eins og aðrir Íslendingar eru eflaust. Ég væri til í að hlaupa með potta og pönnur á eftir þeim ef ég vissi hverjir það væru sem báru ábyrgð á þessu í smáatriðum. Það er alveg hræðilegt að hneppa Íslendinga í þessar skuldbindingar. Efnahagslegt sjálfstæði Íslands hrundi í haust. Sú lausn sem hér er valin er skref til nýs sjálfstæðis og út úr fátæktinni. Uppreisn ærunnar er það sem við þurfum. Auðvitað er ástandið alveg hryllilegt. Við verðum kannski með tuttugu þúsund manns á atvinnuleysisbótum og ungt hæfileikaríkt fólk fer úr landi. Það er flókið við svona aðstæður að kynna lausn eins og þessa því það finnst mörgum allt vont sem er gert. En þetta var sennilega það skásta sem var í stöðunni.“