Hrekkur ekki fyrir skuldum

Mótmælendur hentu smápeningum í Alþingi, sprengdu kínverja og börðu í búsáhöld meðan Steingrímur J. Sigfússon flutti Alþingi skýrslu um Icesavesamkomulagið í dag.  Arnar Rúnar Marteinsson aðalvarðstjóri sagði að peningum hefði rignt niður en þeir færu þó skammt með að hrökkva upp í skuldir vegna Icesave.

Um fjögur hundruð mótmæltu þegar mest var. Fimm voru handteknir en mótmælin voru þó að mestu friðsamleg. Margt fólk var í uppnámi vegna samningsins og sagði framtíð barna sinna og barnabarna stefnt í hættu. Einn viðmælandi mbl beygði af þegar hann lýsti tilfinningum sínum.

Steingrímur J. sagði niðurstöðuna betri en á horfðist þegar núverandi stjórnvöld komu að málinu. Hún væri hinsvegar ekki góð, það gæti aldrei orðið  ánægjulegt að standa að niðurstöðu í þessu máli. En núverandi stjórnvöld hefðu fært það um langan veg til góðs frá því að þau tóku við því. Í þeim skilningi væri niðurstaðan glæsileg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka