Minnisblaðinu stöðugt veifað

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að samninganefndir Breta og Hollendinga hefðu enn verið að veifa minnisblaðinu illræmda, sem skrifað var undir í október, til marks um hvaða vaxtakjör ættu að vera á lánum sem þessar þjóðir veita Íslendingum vegna Icesave.

Fram kom hjá Steingrími fyrr í umræðunni, að 11. október hefðu háttsettir íslenskir og hollenskir embættismenn skrifað undir minnisblað um samkomulag vegna Icesave-reikninganna um að íslensk stjórnvöld bæti hollenskum Icesave-reikningseigendum 20.887 evrur. Samkvæmt því samþykktu hollensk stjórnvöld að lána Íslendingum lán fyrir þessari fjárhæð til 10 ára, afborgunarlaust fyrstu þrjú árin, með 6,7% vöxtum.

Steingrímur sagði síðar í umræðunni, að þetta minnisblað hefði ekki horfið úr sögunni og síðast hefði því verið veifað á hádegi sl. fimmtudag til marks um að vaxtakjör ættu að vera önnur og óhagstæðari en niðurstaðan varð síðar um, 5,55%.  

Fjármálaráðherra sagði það sína skoðun, að það eigi að vera markmiðið, að fjármálakerfið, í gegnum þá fjármuni sem ríkið er nú að setja í að endurreisa það og í framtíðinni, hugsanlega með sérstakri skattlagningu, beri þær byrðar sem kunna að lenda á Íslendingum í þessum efnum þannig að ríkið og skattborgarar þurfi ekki að borga neitt.

Vonsvikinn og svekktur

„Þetta er nöturlegt mál," sagði Steingrímur og þakkaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, fyrir að minna sig á að hann hefði verið vonsvikinn, svekktur og gagnrýninn á þetta mál. „Og ég er það ennþá. Mér finnst það auðvitað ömurlegt, eins og væntanlega öllum í þessum sal, að byrðar þurfi að lenda á Íslendingum vegna þessa. Mitt hlutskipti hefur orðið það, að reyna að greiða úr þessu eins og aðstæður bjóða upp á með meira og minna bundnar hendur. Og ég tel að það hafi tekist." 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert