Segja ekki markað fyrir hvalkjöt í Japan

Grænfriðungar kynntu málstað sinn í Hvalaskoðunarmiðstöðinni við Ægisgarð í morgun.
Grænfriðungar kynntu málstað sinn í Hvalaskoðunarmiðstöðinni við Ægisgarð í morgun. Heiðar Kristjánsson

Grænfriðungar segja engan markað fyrir íslenskt hvalkjöt í Japan, þar sem eftirspurnin þar sé hverfandi. Þar sé nú þegar kjötfjall til í frystigeymslum sem erfiðlega gangi að koma út, en stóraukinn útflutningur þangað sé ekki álitleg viðskiptahugmynd.

Þetta fullyrtu Grænfriðungarnir Sara Holden og Wakao Hanaoka á blaðamannafundi í dag og framvísuðu upptöku og útskrift af símasamtali við hvalkjötsinnflytjanda hjá Asia Trading Co. Ltd. Í samtalinu kveðst hann ekki áforma meiri innflutning frá Íslandi.

„Er það?“ segir innflytjandinn þegar honum er sagt að 150 langreyðar verði veiddar við Ísland í ár og ætlunin sé að flytja mest af kjötinu til Japan. „En það er enginn markaður í Japan!“ segir hann þá. Japanir borði lítinn hval og sé herferð Grænfriðunga þar einna helst um að kenna. Sjávarútvegs- og frystigeymslufyrirtæki vilji ekki tengjast hvalageiranum, enda flestum stjórnað af mönnum úr bankageiranum, sem þori ekki að „rugga bátnum“ í neinu máli og séu ragir.

Aðspurður hvað gerist ef allt þetta kjöt verði flutt til Japan segir hann að engin leið verði að neyta þess alls. ,,Það er rétt hjá þér. Það væri bara ómögulegt. Neyslan hefur minnkað núna. Það er engin neysla. Af hverju? Það eru margar ástæður. Herferðin ykkar hlýtur að vera stór hluti af því. Og svo borða yngri kynslóðirnar líka ekki [hvalkjöt]." Þá segir hann einnig að stærsta ástæðan hljóti að vera bætt lífsskilyrði eftir að Japanir urðu ríkir. ,,Það er engin þörf fyrir að borða slíkt núna. Það hlýtur að vera ástæðan."

Hafa Grænfriðungar eftir innflytjandanum að hann sé ekki mikið inni í málinu, enda aðeins að hjálpa vini sínum, Kristjáni Loftssyni, sem hann hafi starfað með fyrir 20 árum.

Þá kemur fram í samtalinu að ársneysla á öllum tegundum hvalkjöts í Japan sé um 4.000 tonn. Þar er því haldið fram að kjötið af 150 langreyðum yrði jafnmikið eða meira en þessi ársneysla Japan og því algjört offramboð á japanska markaðinn ef til kæmi. 

Sara Holden og Wakao Hanaoka á blaðamannafundi í dag.
Sara Holden og Wakao Hanaoka á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Heiðar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert