Semja verði að nýju um Icesave

Samtökin Indefence segja, að samþykki Alþingi ríkisábyrgð á skuldabréfi Tryggingasjóðs innlánseigenda vegna Icesave-skuldbindinganna, jafngildi það efnahagslegu sjálfsmorði Íslands.

Segja samtökin, að samningurinn í Icesave-deilunni, sem gerður var á föstudag, sé einn versti samningur sem nokkur þjóð hafi gengist við frá því að Þjóðverjar undirrituðu Versalasamningana um stríðsskaðabætur við lok fyrri heimsstyrjaldar. Semja verði upp á nýtt, ekki einungis við bresk og hollensk stjórnvöld heldur alla kröfuhafa Íslands til að tryggja að stað a Íslands verði lífvænleg.

Indefence samtökin stóðu m.a. fyrir undirskriftasöfnun þar sem því var mótmælt áð bresk stjórnvöld beittu hryðjuverkalögum til að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi.

Samtökin segja í tilkynningu, að samningurinn, sem gerður var á föstudag um Icesave-skuldbindingarnar, sé góður fyrir Breta og Hollendinga, enda feli  hann í sér ríkisábyrgð á allri greiðslunni og hærri vexti en eðlilegt getur talist. Hins vegar hafi lítið sem ekkert tillit verið tekið til stöðu Íslands og þeirrar staðreyndar að  skuldbindingin gæti borið þjóðarbúið ofurliði.

„Lausn málsins felst í því að semja upp á nýtt, ekki einungis við bresk og hollensk stjórnvöld heldur alla kröfuhafa Íslands til að tryggja að staða Íslands verði lífvænleg. Við Breta þarf að semja að teknu tilliti til þess tjóns sem þeir ollu íslensku viðskiptalífi með beitingu hryðjuverkalaganna og yfirtöku á Kaupthing Singer og Friedlander. Vaxtakjör þarf að endurskoða enda ljóst að hvert prósent í lækkun vaxta skiptir tugmilljörðum. Það er hægt að vinna mun betur úr samningsstöðu Íslendinga en gert hefur verið í þessum samningi," segja Indefence.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert