Jökulsárlón er nánast fullt af ís, en Einar Björn Einarsson, eigandi og framkvæmdastjóri samnefnds fyrirtækis, sem býður upp á siglingar á lóninu, segir að ísinn hafi ekki enn haft áhrif á viðskiptin.
Einar Björn er með fjóra báta á lóninu og framundan er helsti annatími ársins. Hann segir að meðan austlægar áttir ríki sé allt í lagi að sigla á lóninu þrátt fyrir ísinn. Reyndar hafi vestanáttin ekki heldur hreyft ísinn og því hafi siglingaleiðin haldist opin. „Við höfum sloppið til þessa,“ segir hann en bætir við að ekki þurfi mikið að breytast til þess að siglingarnar leggist af. Hins vegar sé ekkert hættuástand á svæðinu. „Við förum ekki inn í ísinn heldur siglum meðfram honum,“ heldur hann áfram. Einar Björn segir að fari allt á versta veg geti það gerst yfir nótt, „en við vonum það besta“, segir hann.