Skeljungur hefur lækkað útsöluverð á bensíni um 12,50 krónur á öllum útsölustöðum sínum. Segir fyrirtækið ástæðuna vera ótímabæra hækkun á bensíni þann 29. maí í kjölfar þess að opinbert bensíngjald var hækkað með lögum.
Samkvæmt þessu er algengt verð á bensíni í sjálfsafgreiðslu nú 168,80 krónur lítrinn. Verð á dísilolíu breytist ekki og er 171,70 krónur.
Skeljungur hækkaði verð á eldsneyti daginn eftir að hækkun gjaldsins var samþykkt á Alþingi. Félagið segir nú, að endanleg tollafgreiðsla bensíns hafi leitt í ljós, að hækkunin hafi verið ótímabær. Í ljósi mistakanna verður bensínverð lækkað í dag en muni hækka síðar í mánuðinum þegar tollabreyting komi til framkvæmda.
Í tilkynningu segist Skeljungur hafa fengið staðfest frá tollayfirvöldum, að nýtilkomnar breytingar á tollum á bensíni muni aðeins eiga við um bensínbirgðir Skeljungs, sem ekki voru komnar til landsins þann 29. maí sl. Síðustu bensínbirgðir félagsins komu til landsins 12. maí, en voru ekki tollafgreiddar endanlega fyrr en 5. júní. Því voru álagðir tollar lægri en reiknað hafði verið með.