Skriflegt samkomulag í október

Fjöldi fólks er á Austurvelli framan við Alþingishúsið þar sem …
Fjöldi fólks er á Austurvelli framan við Alþingishúsið þar sem verið er að ræða Icesave-samkomulagið. mbl.is/Kristinn

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, gerði Alþingi í dag grein fyrir samkomulaginu sem gert hefur verið við Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni. Lagði hann áherslu á að ríkisstjórnin hefði þurft að standa við yfirlýsingar fyrri stjórnar um ábyrgð á skuldbindingunum.

Steingrímur sagði búið hefði verið að ganga frá því í öllum aðalatriðum af hálfu fyrri ríkisstjórnar, hvernig ætti að gera þessi mál upp, ekki aðeins með munnlegum hætti heldur einnig skriflegum hætti þar til bærra stjórnvalda.

Því hefði ný samninganefnd, sem skipuð var í febrúar, þurft að koma málinu upp úr þessum farvegi og það hefði tekist því. „Í ljósi þeirrar aðstöðu, sem nefndinni var búin, var niðurstaðan glæsileg," sagði Steingrímur.  

Steingrímur vísaði m.a. til þess, að í október gert hefði verið skriflegt  undirritað samkomulag við Hollendinga af til þess bærum embættismönnum með staðfestingu viðkomandi ráðherra. Þá hefði verið gert ráð fyrir láni til 10 ára, afborgunarlaust fyrstu þrjú árin en með fullum vöxtum upp á 6,7%. Gert hafi verið ráð fyrir svipaðri niðurstöðu gagnvart Bretum.

Þetta hefði verið enn betur innsiglað í nóvember þegar samþykkt voru sameiginleg viðmið. Vísaði Steingrímur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu þar sem segir, að samkomulag hefði náðst við Evrópusambandið fyrir hönd Hollendinga og Breta sem fæli í sér, að Íslendingar ábyrgist lágmarkstryggingu innistæðna á Icesave-reikningum. Miðað var við að endanlegur kostnaður muni ráðast af því hvað greiðist upp í innistæðutrygginguna af eignum bankanna.

Loks sagði Steingrímur að Alþingi hefði með þingsályktunartillögu falið  ríkisstjórn Íslands að leiða samningana til lykta á þessum forsendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert