Bæjarfulltrúarnir Björn Haraldsson, bæjarfulltrúi Frjálslynda flokksins og Garðar Páll Vignisson, annar af tveimur bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar í Grindavík, hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur að þeir hafi báðir ákveðið að ganga til liðs við Vinstrihreyfinguna - grænt framboð (VG).
Björn sagði í samtali við blaðamann mbl.is í dag að honum hafi fundist hann hálf munaðarlaus eftir að Frjálslyndi flokkurinn lognaðist út af. Hann hafi því átt viðræður við bæði Samfylkinguna og Vinstri græna um framhaldið og þær hafi þróast með þeim hætti, að bæði hann og Garðar Páll hafi ákveðið að ganga til liðs við Vinstri græna.
Björn sagðist ætla að verja meirihlutasamstarf Samfylkingar og Framsóknarflokks út kjörtímabilið og gera ráð fyrir að Garðar Páll geri það líka. „Það hefur gengið á ýmsu og meirihlutasamstarfið hefur þegar sprungið einu sinni þannig að okkur finnst ekki réttlætanlegt að hringla meira með það,” sagði hann.
„Það liggja ólíkar forsendur að baki þessum ákvörðunum okkar. Garðar Páll hefur átt erfitt eftir að hann fékk ekki skólastjórastöðu sem hann sóttist eftir. Hann er laskaður eftir það og ég geri ráð fyrir að það spili inn í ákvörðun hans. Hvað mig varðar þá lít ég fyrst og fremst til sjávarútvegsmála. Mér finnst Vinstri grænir einna helst hafa tekið þar upp stefnu sem ég geti unnið að og verið sáttur við."
Yfirlýsingi Björns og Garðars fer hér á eftir:
„Bæjarfulltrúarnir Björn Haraldsson og Garðar Páll Vignisson tilkynna hér með að þeir hafa ákveðið að ganga til liðs við Vinstrihreyfinguna - grænt framboð (VG).
Þegar þessi ákvörðun er tekin teljum við hagsmunum Grindavíkur best borgið með þessum hætti. Það er okkar trú að framtíð ýmissa aðkallandi verkefna séu best tryggð með aðkomu VG. Hér er meðal annars verið að vísa til atvinnuuppbyggingar og að möstrin í nágrenni bæjarins fari burt en þau eru leifar frá veru hersins á Íslandi. Menntaskólinn í Grindavík verði að veruleika og lönd í eigu ríkisins í lögsögu Grindavíkur verði í eigu Grindavíkurbæjar."