Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., segir það uppspuna hjá Grænfriðungum að þeir hafi átt símasamtal við hvalkjötsinnflytjanda í Japan, sem vinni með Hval hf.
Grænfriðungar sýndu blaðamönnum í morgun hljóðupptöku og útskrift af samtali við starfsmann Asia Trading Co. Ltd., þar sem haft er eftir honum að enginn markaður sé fyrir hvalkjöt í Japan og að hann hyggi ekki á meiri innflutning. Hann kannast ekki við áform um að flytja þangað kjöt af 150 langreyðum í samtalinu.
Kristján segir að þetta séu dæmigerð vinnubrögð af hendi Grænfriðunga sem beiti ýmsum meðulum. Hann hafi talað við innflytjandann eftir að málið kom upp á yfirborðið og sá hafi staðfest við sig að hann hafi ekki átt umrætt samtal.
Skip Hvals hf. hafa verið í mikilli yfirhalningu að undanförnu og sér á þeim stóran mun frá því í vetur. Sást eitt þeirra sigla út úr höfninni nú í dag. Aðspurður segir Kristján að verið sé að prófa búnað og vélar og sjá til þess að hlutirnir virki.
Hins vegar segir hann að ekki sé komin dagsetning á veiðar enn. Viðgerðir hafi tekið nokkuð lengri tíma en áætlað var og enn sé nokkuð í land með þær. Hins vegar sé nógur tími til stefnu til að hefja veiðarnar. Hvalskipið kemur aftur til hafnar í kvöld, eftir þessa tilraunasiglingu.