Eðlilegast að bæjarstjórinn víki

VG í Kópavogi segir, að bæjarstjórinn í bænum hljóti að skoða stöðu sína í ljósi skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte um viðskipti Kópavosbæjar og fyrirtækisins Frjálsrar miðlunar. Vinstri græn telji eðlilegast að bæjarstjórinn víki. 

Í tilkynningu frá flokknum segir, að ljóst sé að undir stjórn Gunnars I. Birgissonar, bæjarstjóra, hafi verið teknar ákvarðanir um viðskipti við Frjálsa miðlun án undangenginna útboða og án þess að venjur um slík viðskipti væru virtar. Reikningar fyrirtækisins séu ónákvæmir, og á köflum ómögulegt að gera sér grein fyrir hvaða þjónusta sé keypt eins og fram komi í skýrslu Deloitte.

„Sú aðferð sem notuð er að dreifa reikningum á mismunandi bókhaldslykla virðist skýr tilraun til að fela að um óeðlileg viðskipti sé að ræða. Ábyrgð á þeim verknaði hlýtur að hvíla hjá bæjarstjóra. Siðareglur bæjarins, sem allir bæjarfulltrúar hafa staðfest með undirskrift sinni fyrir fáeinum dögum, hafa verið þverbrotnar.

Vinstri græn krefjast þess að bæjarstjórinn, sem og meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Kópavogs axli ábyrgð vegna málsins. Bæjarstjórinn hlýtur að skoða stöðu sína í ljósi skýrslunnar og þeirra ásakana um brot sem þar koma fram. Vinstri græn telja eðlilegast að bæjarstjórinn víki," segir síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert