„Ég lít á þetta sem mjög alvarlega stöðu," segir Katrín Jakobsdóttir um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna, en útlit er fyrir að grunnframfærsla sjóðsins verði ekkert hækkuð í úthlutunarreglum fyrir næsta ár. Framfærslan er núna rúmar 100 þúsund krónur á mánuði.
Í samtali við mbl.is segist Katrín ekki búin að sjá endanlegar úthlutunarreglur frá stjórn sjóðsins. „Út frá þeim niðurskurðarramma sem við erum að vinna innan erum við búin að einsetja okkur að skera ekki niður lánasjóðinn. Hins vegar er ljóst að það er ekkert svigrúm til hækkana."
Hún segir hins vegar spurningu hvort ekki megi skoða málið í samhengi við almennar tilfærslur í kerfinu. „Ég er alla vega þeirrar skoðunar að á svona tímum sé eðlilegt að skoða hlutfallið, þ.e. tilfærsluna milli atvinnuleysistryggingasjóð og LÍN og beina frekar fjármunum í Lánasjóðinn. Það er mín skoðun." Þannig hafi t.a.m. aukaframlag til sjóðsins vegna sumarnáms námsmanna verið rökstutt.
Bent hefur verið á að þar sem atvinnuleysisbætur séu tæpar 150 þúsund krónur og félagsbætur sveitarfélaga á bilinu 105 – 120 þúsund geti þetta orðið til þess að námsmenn velji frekar að fara á bætur en að halda áfram námi og taka lán, sem þeir síðar þurfi að borga til baka. „Já, það er nákvæmlega það sem ég hef verið að segja sjálf þannig að ég ætla að kynna þessa stöðu í ríkisstjórn á föstudaginn," segir Katrín um þetta.
Búist er hins vegar við því að nýjar reglur sjóðsins verði samþykktar á fimmtudag. „Ef forsendur breytast geri ég ráð fyrir að þótt að úthlutunarreglur séu samþykktar á vorin sé hægt að koma eitthvað til móts við sjóðinn. Ég ímynda mér að praktísk atriði hamli því ekki."