Gunnar segir lög ekki brotin

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs.
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Golli

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Í Kópavogi, hafnar því að lög um opinber innkaup hafi verið brotin í viðskiptum bæjarins við Frjálsa miðlun. „Þessi skýrsla segir það líka að ég er ekki tengdur viðskiptum þessa fyrirtækis við bæinn,“ segir hann við mbl.is um greinargerð Deloitte.

Gunnar segir að í skýrslunni komi fram ábendingar um að margt megi fara betur í bókhaldi bæjarins „og auðvitað munum við taka tillit til þess. Við þurfum líka að fá skýringar um afmælisritið frá afmælisnefndinni. Hún ber ábyrgð á því.“

Gunnar segist vera leiður yfir því að bókhaldsfærslurnar séu ekki nógu góðar hjá bænum, eins og gerðar séu athugasemdir við í skýrslu Deloitte.

„Við munum bæta úr því en ég tók ekki við sem bæjarstjóri fyrr en um mitt ár 2005 og í minni tíð hafa verið samþykktar nýjar innkaupareglur, við höfum sett upp tvöfalt uppáskriftakerfi og nú erum við nýbúnir að samþykkja siðareglur fyrir bæjarfulltrúa og starfsmenn bæjarins. Ég vil hafa þetta í lagi en ef um tengda aðila er að ræða eins og í þessu tilviki þar sem um dóttur mína er að ræða, er mjög auðvelt að gera það tortryggilegt. Samfylkingin hefur reynt að gera þetta tortryggilegt til að reyna að hafa af mér æruna og reyna að koma mér út úr pólitík," segir Gunnar. ,,Mér finnst þessi aðferð hafa verið mjög varasöm og mjög sérstök," segir hann. 

Það voru gerðar verðkannanir

Gunnar segir það rétt að í greinargerðinni komi fram athugasemdir við afgreiðslu á reikningum og að fært hafi verið á ranga bókhaldslykla. „Slíkt getur alltaf komið fyrir hjá bæði Kópavogsbæ sem öðrum. Það er einnig gagnrýnt að ekki hafi verið gerðir skriflegir verksamningar og virðisaukaskattur ekki rétt færður. Það sem vekur athygli er að þeir fullyrða að það hafi ekki verið gerðar verðkannanir. Það gengur þvert á það sem sviðsstjórarnir segja, að það hafa verið gerðar verðkannanir og útboð.

Síðan er fjallað um afmælisritið sem var aldrei lokið við en það var tilbúið frá Frjálsri miðlun, umbrotið, með 50 eða 100 myndum en það vantaði bara textann. Ég var ekki í þessari afmælisnefnd, sem bar á byrgð á þessu. Ég hef skrifað formanni hennar, Hansínu Björgvinsdóttur, sem var bæjarstjóri hér, bréf þar sem ég óska skýringa á þessu. Öll þessi vinna var unnin á ábyrgð þessarar nefndar," segir Gunnar.

Í skýrslu Deloitte segir að almennt virðist ekki hafa verið gerðar verðkannanir eða leitað tilboða í verkefni sem Frjáls miðlun hefur unnið fyrir bæinn. Viðskiptin séu því hugsanlega brot á lögum um opinber innkaup. Gunnar bendir á að þarna segi að hugsanlega sé um brot að ræða vegna þess að fjárhæðir fari yfir hámark, sem miðað er við hjá Ríkiskaupum.

„Við erum hér með innkaupareglur frá 1999-2000 þar sem stendur svart á hvítu að meginreglan er sú að verk sem eru stærri en 5 milljónir skuli boðin út. Það sé heimilt að fara bæði í opin og lokuð útboð og eins að heimilt sé að semja við verktaka án undangenginna útboða við sérstakar aðstæður. Þarna var um að ræða rosalega litlar upphæðir, yfirleitt frá hundrað til tvöhundruð þúsund og upp í eina milljón eða svo," segir Gunnar.

Ekki áfellisdómur  

Spurður hvort hann líti á greinargerð Deloitte sem áfellisdóm segir Gunnar svo ekki vera. Þarna séu hins vegar ábendingar um að margt megi fara betur í bókhaldinu og að sjálfsögðu verði tekið tillit til þess.

,,Það vakti athygli mína að í úttektinni er mælst til þess að bæjarstjórn eigi að samþykkja alla reikninga yfir tiltekinni upphæð. Það þekkist hvergi í opinberri stjórnsýslu í dag að viðkomandi stjórnir skrifi upp á reikninga. Það er alveg ljóst að það eru örugglega gerð mistök þegar menn eru að færa reikninga á liði en það eru hvorki meira né minna en 60 þúsund reikningar sem berast Kópavogsbæ á hverju ári."

Gunnar segir að krafa Samfylkingarinnar um að hann segi af sér vegna þessa komi ekki á óvart. Samfylkingin hafi viljað hann úr bæjarstjórastólnum frá upphafi. ,,Þessi skýrsla segir líka að að ég er ekki tengdur viðskiptum þessa fyrirtækis við bæinn. Það er ekkert sem segir í þessu, sem var gagnrýni þeirra, að Frjáls miðlun hafi unnið fyrir bæjarfélagið án þess að verk fyrir greiðslunum lægju fyrir. Það eina sem afmælisnefndin þarf að skýra er það mál," segir hann.

Gunnar segist ekki geta ímyndað sér að þetta mál muni hafa áhrif á meirihlutasamstarfið við Framsóknarflokkinn. „Það hefur verið gott og farsælt í 19 ár. Ég get ekki séð að það verði nein ástæða til breytinga á því," segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert