Hugsanleg brot á lögum um opinber innkaup

Kópavogur.
Kópavogur. www.mats.is

Endurskoðunarfyrirtækið  Deloitte segir í greinargerð um viðskipti Frjálsrar miðlunar við Kópavogsbæ, að almennt virðist ekki hafa verið gerðar verðkannanir eða leitað tilboða í verkefni sem fyrirtækið hafi unnið fyrir bæinn. Viðskiptin séu því hugsanlega brot á lögum um opinber innkaup.

Frjáls miðlun er í eigu dóttur Gunnars I. Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi. Á síðustu níu árum hefur fyrirtækið fengið um 50 milljónir frá bænum en fyrirtækið  hefur séð um útgáfustarfsemi ýmis konar, þar á meðal prentun ársreikninga, ársskýrslur, kynningarefni, bæklinga og viðurkenningar.

Í skýrslu Deloitte, sem birt er á heimasíðu Kópavogsbæjar, kemur m.a. fram að á síðustu fimm árum hafi Frjáls miðlun fengið greiddar rúmar 39 milljónir vegna ýmissa verka samkvæmt 185 reikningum. Lausleg skoðun bendi til þess, að Kópavogsbær hafi á þessu tímabili verið stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins.

Í skýrslunni segir m.a. að reikningar frá Frjálsri miðlun virðist í mörgum tilfellum bókaðir á ranga bókhaldslykla í fjárhagsbókhaldi. Þá hafi almennt ekki verið gerðir skriflegir verksamningar vegna verkefnanna.

Deloitte segir, að reikningar frá Frjálsri miðlun fullnægi ekki skilyrðum virðisaukaskattslaga um sundurliðun upplýsinga en lögum samkvæmt skuli reikningar bera með sér magn, einingaverð og heildarverð eftir því sem við verður komið. Þá telur Deloitte, að ekki sé heimilt að nýta endurgreiðslu virðisaukaskatts af þjónustu fyrirtækisins en það hafi verið gert í sumum tilvikum.

Loks segir endurskoðunarfyrirtækið, að það veki  athygli að frá 23. mars 2005 hafi bærinn móttekið og greitt 6 reikninga frá Frjálsri miðlun vegna afmælisrits. Verkefninu virðist ekki hafa verið lokið og ekki liggi fyrir aðrar afurðir en drögin að uppsetningu, sem voru prentuð út 23. mars 2005.

Skýrsla Deloitte

Gunnar Birgisson.
Gunnar Birgisson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka