Fyrstu þrjá mánuði ársins hafa 268 Íslendingar tilkynnt um flutning frá Íslandi til Noregs. Að sögn norska ríkisútvarpsins er mikil eftirspurn frá Íslendingum eftir vinnu í Noregi.
Útvarpið hefur eftir Cathrine Holter, starfsmanni norsku vinnumálastofnunarinnar, að hún áætli að nærri þúsund Íslendingar hafi komið til Noregs á fyrstu mánuðum ársins í leit að vinnu.
Holter hefur eftir íslenskum starfsbræðrum sínum, að í lok mars hafi verið áætlað að um 1000 manns hafi farið frá Íslandi og að 90% þeirra hafi farið til Noregs til að vinna.
NRK ræðir við Jón Ágúst Reynisson, einn Íslendinganna sem eru fluttir til Noregs. „Staðan á Íslandi er erfið og ég varð að fara hingað til að vinna," segir hann.