Leit hætt á Faxaflóa

Varðskipið Týr á siglingu.
Varðskipið Týr á siglingu. mynd/LHG

Leit hefur verið hætt á Faxaflóa austur af Garðskaga en þyrla og skip voru send þangað til leitar eftir að reykur sást á svæðinu. Ekki hafa fundist frekari vísbendingar um reykinn en þrjár tilkynningar bárust um hann fyrr í kvöld.

Fyrsta tilkynningin barst til Neyðarlínunnar laust fyrir klukkan 21 í kvöld um reyk á sjó, um 4-5 sjómílur norðaustur af Njarðvík. Tvær tilkynningar bárust til viðbótar. Ekki var vitað um að skip eða bátar væru á þessum slóðum en nauðsynlegt var talið að kanna málið nánar.  Björgunarskip og bátar frá Suðurnesjum og Hafnarfirði fóru til leitar auk varðskips og  þyrlu Landhelgisgæslunnar. 

Að sögn Landhelgisgæslunnar er nú talið, að fullleitað sé á svæðinu en varðskip verður áfram á staðnum og fylgist með svæðinu. Björgunarskip og bátar Slysavarnafélagsins Landsbjargar halda hins vegar senn til hafnar og þyrla Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvöll. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert