Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjabæ, segir að ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um hvernig brugðist verði við bágri stöðu lundastofnsins í Vestmannaeyjum.
Þar er stærsta einstaka varpstöð lunda í veröldinni en á síðastliðnum fjórum árum telur Náttúrustofa Suðurlands að stofninn hafi dregist saman um fjórðung. Veiðistofn lundans, 2-4 ára ókynþroska fuglar, leit aldrei dagsins ljós vegna lélegrar nýliðunar.
„Það virðist stefna í að lundaveiði verði mjög takmörkuð í sumar hér í Vestmannaeyjum eins og hún hefur verið seinustu sumur,“ segir Elliði og telur að þrengt verði enn frekar að veiðunum. Hann reiknar þó ekki með að þeim verði alfarið hætt.
„Lundaveiði í Vestmannaeyjum er í rauninni ekki á veiðiforsendum, hún er á menningarlegum forsendum, [...] það er enginn sem lifir á þessu og þetta er ekki spurning um tekjur af veiðinni,“ segir Elliði. Hann segir að reynt verði að viðhalda þessari menningarhefð Vestmannaeyinga með þeim formerkjum að veiðarnar verði sjálfbærar. Lundinn muni þó óhjákvæmilega njóta vafans.