Milljónir endurgreiddar og gefnar

ætlar að endurgreiða öllum þeim sem tóku bensín á bensínstöðvum fyrirtækisins þá daga sem ný eldsneytisgjöld ríkisstjórnarinnar voru rukkuð inn án þess að þau væru komin á birgðirnar. Skeljungur hefur einnig, ásamt Olís og N1, lækkað verð á bensíni um 12,5 kr. á meðan birgðir endast.

Skeljungur reiknar, samkvæmt tilkynningu, með að þurfa að hækka bensínverðið síðar í vikunni. Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, segir óákveðið hvort olíufélagið hækki verðið aftur, en þar sem heimsmarkaðsverð hækki og krónan lækki sé umhverfið ekki hagstætt neytendum.

N1 ætlar, segir Hermann, að gefa ofteknu gjöldin, um 9 milljónir króna, til góðgerðarmála. Hagsmunasamtök heimilanna, Umhyggja, Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpin njóta þeirra: „Okkur fannst hreinlegra að taka allt það sem innheimtist í oftekna bensínskatta og gefa til góðgerðarmála. Ég vona að neytendur sjái það sem sitt framlag. Ef einhverjir halda því til streitu að koma með kvittanir og óska eftir endurgreiðslu munum við skoða hvert tilvik fyrir sig.“

Hermann útskýrir misskilninginn þannig að að kvöldi 28. maí hafi tölvupóstur borist frá fjármálaráðuneytinu um lagabreytinguna. Olíufélögin hafi verið beðin um að vera í startholunum og bregðast við með sama hætti og alltaf hafi verið gert. Það hafi verið gert. Síðan hafi komið í ljós að tollstjóri hafi skilið lagabreytinguna með öðrum hætti en fjármálaráðuneytið, sem hafi í gær úrskurðað að túlkun tollstjóra yrði ofaná. „Það er hræðilegt fyrir fyrirtæki eins og okkar að vera sett í þessa stöðu. Okkar hagsmunamál er að verð á eldsneyti sé sem lægst,“ segir hann.

Neytendastofa ætlar nú að meta hvort frekari aðgerða verði þörf af hennar hálfu. Þórunn Anna Árnadóttir, sviðstjóri neytendasviðs Neytendastofu, segir að svör olíufélaganna þriggja, sem stofan krafðist af þeim, hafi borist seint á föstudag og enn eigi eftir að fara yfir þau.

Ekki náðist í forsvarsmenn Olís við vinnslu fréttarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert