Vinnu viðsemjenda á vinnumarkaði og stjórnvalda að tillögugerð í efnahags- og atvinnumálum er nú lokið og verða þær kynntar innan skamms. Þær fjalla um fjölmargar verklegar framkvæmdir með aðkomu lífeyrissjóða, sem búa sig nú undir að ríkisstjórnin taki upp formlegar viðræður við sjóðina.
Möguleg þátttaka þeirra yrði fyrst og fremst í fjármögnun framkvæmda í samgöngumálum og uppbyggingu á Landspítalalóðinni. „Við munum setja vinnu í gang á okkar vegum og skoða þá möguleika sem lífeyrissjóðirnir hafa til að koma að fjármögnun einstakra framkvæmda og vinna áfram að stofnun endurreisnarsjóðsins,“ segir Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.
Einnig eru tillögur um orkuframkvæmdir en viðræður lífeyrissjóða við Landsvirkjun hafa snúist um endurfjármögnun en ekki nýframkvæmdir.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.