Rjúpnatalningar Náttúrufræðistofnunar Íslands í vor benda til þess að uppsveifluskeið, sem hófst á austanverðu landinu á síðasta ári, nái nú til alls landsins.
Náttúrufræðistofnun segir, að eftir tveggja ára stofnvöxt séu rjúpur að verða algeng sjón í varplöndum um Norður- og Austurland. Meðalaukning milli áranna 2008 og 2009 var um 25%.
Stofnunin segir, að venjulega hafi fyrri uppsveifluskeið varað í fjögur til fimm ár. Miðað við þær forsendur megi búast við að stofninn nái hámarki á árunum 2011 og 2012. Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins mun liggja fyrir í ágúst í kjölfar mælinga á varpárangri rjúpna, afföllum og veiði á síðasta ári.