„Þjóðstjórn" í Borgarbyggð

Borgarnes í Borgarbyggð.
Borgarnes í Borgarbyggð.

Nýr meirihluti allra flokka í bæjarstjórn hefur verið myndaður í Borgarbyggð. Sjálfstæðisflokkur og Borgarlisti hafa myndað meirihluta en hafa nú boðið Framsóknarflokki, sem var í minnihluta, aðild að meirihlutanum gegn því að flokkurinn fái embætti formanns byggðaráðs. 

Á almennum félagsfundi í Framsóknarfélagi Borgarfjarðar- og Mýra í kvöld var samþykkt ályktun um að mikilvægt sé að kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn Borgarbyggðar taki höndum saman við leit að lausn á hinum mikla fjárhagsvanda sveitarfélagsins. Því lýsi félagið yfir stuðningi við ákvörðun fulltrúa Framsóknarmanna í sveitarstjórn Borgarbyggðar, að mynda nýjan meirihluta í „þjóðstjórnarformi”.

„Rík krafa er uppi í þjóðfélaginu um að kjörnir fulltrúar almennings, í landsmálum jafnt sem sveitarstjórnum, starfi þvert á flokkslínur við úrlausn þess bráðavanda, sem skapast hefur m.a. sökum hinna efnahagslegu hamfara sem dunið hafa á íslenskri þjóð undanfarin misseri. Fundurinn telur mikilvægt að tekið verði á málum af festu og sanngirni í þeirri vinnu, sem framundan er hjá Borgarbyggð. Þá fagnar fundurinn sérstaklega að á verkefnalista nýs meirihluta verði opinber rannsókn á rekstri og falli Sparisjóðs Mýrasýslu," segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert