Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að hún hefði í morgun orðið vitni að þeim farsa, að tveimur þingnefndum Alþingis hefði verið meinaður aðgangur að upplýsingum á grundvelli 5. greinar upplýsingalaga.
Í 5. grein laganna væri kveðið á um rétt almennings til upplýsinga og svo virtist sem þingmenn hefðu minni rétt en almenningur. Sagði hún fráleitt að ætla, að kjörnir fulltrúar á Alþingi geti tekið upplýstar ákvarðanir nema á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga. Málið væri prófsteinn á styrk Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu, stofnunum og embættismannakerfinu.
Um var að ræða sameiginlegan fund efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar þar sem verið var að fjalla um verðmat á eignum við uppgjör gömlu og nýju bankanna.
Fleiri þingmenn, sem sátu fundinn, tóku undir orð Steinunnar Valdísar. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það hefði verið mikil þrautaganga að fá upplýsingar um málið en fulltrúi Fjármálaeftirlitsins hefði komið á fundinn í morgun og sagt, að þeir hefði gert þannig samninga sl. haust, að engin leið væri að upplýsa þingmenn um þá.
Álfheiður Ingadóttir, formaður efnahags- og skattanefndar, að kannski komi til þess, að þingmenn þurfi að fara að berja búsáhöld í þingsalnum til að kalla fram upplýsingar. Sagði hún að þetta væri prófsteinn á hvort Alþingi geti unnið að endurreisn efnahagslífsins.