„Sjálfur vil ég sjá Ísland ganga í sambandið eins fljótt og auðið er en legg á það áherslu að þið skylduð ekki gera ykkur of miklar væntingar. Þetta er erfitt ferli,“ segir Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, sem tengir aðspurður uppgreiðslu Icesave-skulda og mögulega aðild Íslands að ESB.
Inntur eftir því hvers vegna Norðurlandaþjóðirnar hefðu ekki stutt þá skoðun að íslensku þjóðinni bæri ekki að greiða upp Icesave-skuldahalann svaraði hann því til að það væri ekki hlutverk finnskra utanríkisráðherra að blanda sér í innanlandsmál á Íslandi. Svo bætti hann við: „Rök mín eru þau að fagna beri sérhverji þeirri ákvörðun sem greiði götu Íslands að Evrópusambandsaðild."
Aðspurður um hvernig Finnar meti kosti og galla þess að notast við evru andspænis efnahagsþrengingunum kveðst Stubb „100 prósent sannfærður um að evrupptaka hafi verið rétt ákvörðun“.
„Við Finnar eru mjög vel undir kreppuna búnir því við búum að reynslunni af kreppunni í upphafi síðasta áratugar. Undirstöður hagkerfisins eru traustar. Þegar vel áraði lögðum við fé til hliðar og getum því varið fé þegar að kreppir. Bankar okkar standa vel.“
Stubb segir evruna undirstöðu stöðugleika hvort sem horft sé til vaxtastigs eða verðbólgu.
„Án evrunnar væri efnahagsástandið í ríkjum Evrópusambandsins, þar með talið í ríkjum sem standa utan evrunnar, skelfilegt. Ég vil ekki einu sinni hugsa til þess í hvaða stöðu Evrópa væri án gjaldmiðilsins.“
Umsóknarferlið er aldrei auðvelt
Stubb er varfærinn þegar hann er spurður um hvað ráðleggingar Finnar geti gefið Íslendingum í umsóknarferlinu.
„Ég ætla ekki að gefa íslenskum stjórnvöldum nein ráð um hvernig beri að haga aðildarviðræðum því ég er þess full viss um að íslensk stjórnvöld og þingið séu fullfær um að takast á við þetta.
Ef við horfum hins vegar til reynslu okkar Finna er afar mikilvægt að hafa í huga að aðildar- og umsóknarferlið er aldrei auðvelt. Menn skyldu ekki gera sér rósrauðar væntingar um að afgreiðsla umsóknar muni þegar í stað liggja fyrir eða að sjálfar aðildarviðræðurnar verði leikur einn.
Þvert á móti þá munu þær verða mjög erfiðar því grundvallarviðhorf Evrópusambandsins liggur fyrir: Það yrði hlutverk Íslands að fylgja reglum sambandsins. Það hafa vissulega margir lagabálkar þegar verið afgreiddir (í gegnum EES-samninginn) en það er mikil vinna fram undan.“
Mun taka sinn tíma
Stubb rifjar því næst upp að þegar Finnar lögðu fram aðildarumsókn að sambandinu á fyrri hluta síðasta áratugar hafi sjö mánuðir liðið áður en þeir fengu samþykki um að samningaviðræður skyldu hefjast.
Síðan hafi tekið átján mánuði að semja. Að því loknu hafi kostir og gallar aðildar verið rökræddir í þjóðfélaginu áður en lokaumræða fór fram í kringum sjálfa þjóðaratkvæðagreiðsluna.
„Þess vegna horfum við ekki til þess að Ísland gerist aðili að sambandinu á næstu dögum. Þetta mun taka sinn tíma.“
Óraunhæfar væntingar
- Bjartsýnustu Evrópusambandssinnar á Íslandi hafa haldið því fram að inngönguferlið gæti tekið aðeins átján mánuði eftir að umsókn liggur fyrir og aðild því orðið að veruleika um og eftir áramótin 2010. Hvert er þitt mat á þessari spá?
„Ég tel hana óraunhæfa.“
- Hvernig lítur raunhæfur tímarammi út?
„Ég get ekki getið mér til um tímaramma umsóknaraðildar sem hefur ekki verið lögð fram. Utanríkisráðherrar draga ekki slíkar ályktanir. Við getum hins vegar orðað það svo að þetta muni taka mun lengri tíma en átján mánuði. Á því leikur enginn vafi.“
Ber að horfa til stækkunarþreytunnar
Stubb vísar einnig til stækkunarþreytu innan sambandsins
„Það ber einnig að horfa til þeirrar stækkunarþreytu sem er innan sambandsins. Þótt ekki skyldi setja mögulegar aðildarumsóknir Serbíu, Króatíu og Tyrklands í sömu körfu og mögulega umsókn Íslands er stækkun hins vegar alltaf stækkun sem krefst einróma samþykkis 27 aðildarríkja sambandsins. Þetta er því í senn ófyrirsjáanlegt og umfram allt aldrei auðvelt ferli.“
- Hvenær geta Íslendingar vænst þess að geta tekið upp evruna?
„Aðild að Evrópusambandinu og evruupptaka er sitt hvor hluturinn. Aðild að sambandinu þýðir ekki sjálfkrafa upptöku evrunnar.“
Athugasemd blaðamanns: Tilvitnun í ummæli Stubbs um Icesave hefur verið breytt lítillega. Spurt var um hvers vegna Norðurlandaþjóðirnar - en ekki eingöngu Finnar eins og spurningin var orðuð í fyrri útgáfu fréttarinnar - hefðu ekki stutt þá skoðun að íslensku þjóðinni bæri ekki að greiða upp Icesave-skuldahalann. Þá hefur bein tilvitnun í orð hans um sama mál verið lengd lítillega.