Náttúrustofa Suðurlands leggur til að bannað verði að veiða lunda í Vestmannaeyjum frá og með þessu ári og segir að veiðarnar, sem þar eru stundaðar, séu ekki lengur sjálfbærar.
Einnig leggur stofnunin til, að veiðibanninum verði ekki aflétt fyrr en eftir að tveir árgangar yfir meðallagi að stærð hafi náð tveggja og þriggja aldri og að veiðin verði þá háð takmörkunum.
Fram kemur í greinargerð Náttúrustofu Suðurlands, að varpstofninn, fuglar 5 ára og eldri, í Vestmannaeyjum er áætlaður 704.000 pör. Því séstaðfest, að Vestmannaeyjar séu stærsta einstaka varpstöð lunda í heiminum eins og lengi hafi verið talið.
Veiðistofninn, 2-4 ára ókynþroska fuglar, við Vestmannaeyjar er hins vegar að mestu horfinn leit aldrei dagsins ljós í kjölfar lélegar nýliðunar samfellt í fjögur ár frá og með 2005. Náttúrustofan segir, að samkvæmt upplýsingum frá bjargveiðifélögum í Vestmannaeyjum, sem ná lengst aftur til ársins 1944 og endurspegla nýliðun bæði lunda og sandsílis, virðist viðkomubrestur aldrei áður hafa orðið svona mikill og langvinnur.
Segir stofnunin að leiða megi sterk rök fyrir því að vegna þessarar litlu ungaframleiðslu undanfarin fjögur ár hafi heildarstofn lundans í Vestmannaeyjum minnkað um 25%. Lundastofninn í Vestmannaeyjum uppfylli þannig tæknilega þau skilyrði að vera settur á válista Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna undir skilgreiningunni „í yfirvofandi hættu."