Á Norðurlöndunum er lagaumhverfi sveitarfélaga með öðrum hætti en hér. Sérstaklega á það við um hvernig rekstri sveitarfélaga skuli háttað og þá með það að leiðarljósi að sporna gegn óráðsíu í rekstri og of mikilli skuldsetningu. Þá tekur lagaumhverfið á Norðurlöndum einnig mið af því að stjórnsýslan er byggð upp með öðrum hætti. Sveitarstjórnarstigið er undir svæða- og fylkisstjórnsýslustigi þar sem stefnan innan hvers svæðis er mótuð.
Í lögum í Danmörku, Svíþjóð og Noregi er til að mynda algjört bann við skuldsetningu sveitarfélaga í erlendri mynt. Er það meðal annars gert þar sem áhættuþátturinn í slíkum lántökum er óviðkomandi ákvörðunum sveitarstjórnanna. Hvernig sem sveitarfélögin haga sínum málum, þá geta skuldir í erlendri mynt alltaf valdið tjóni, meðal annars vegna vandamála sem geta komið upp erlendis.
Sveitarfélög hér á landi standa nú höllum fæti, meðal annars vegna mikilla lántaka í erlendri mynt. Á árunum 2005 til 2007 jukust lántökur sveitarfélaga sem hlutfall af landsframleiðslu úr 15 prósent í rúmlega 20 prósent. Ekki síst þau sem bera skuldir í erlendri mynt. Helst eru það dótturfélög, s.s. orkuveitur og hafnarsjóðir, sem skulda mikið í erlendri mynt. Tekjutap sveitarfélaga, vegna afleiddra vandamála af hruni krónunnar og bankakerfisins, veldur þeim einnig miklum vanda. Seðlabanki Íslands spáði því í byrjun árs að tekjur sveitarfélaga gætu dregist saman um 15,5 prósent á þessu ári, en útlit er fyrir að samdrátturinn geti orðið meiri.
Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga liggur enn ekki fyrir, samantekið, hversu miklar skuldirnar eru sem sveitarfélögin ábyrgjast, þ.e. sem tilheyra bæði A- og B-hluta efnahagsreiknings. Stefnt er að því að upplýsingar um þær liggi fyrir seinna í þessari viku.
Til A-hlutans teljast grunnstoðir þjónustu sveitarfélaga sem fjármagnaðar eru með útsvarstekjum, en til B-hlutans telst starfsemi dótturfyrirtækja.
Heildartap fjögurra stærstu sveitarfélaga landsins, Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar, Kópavogs og Akureyrarbæjar, á síðasta ári nam um 100 milljörðum króna. Að stærstum hluta má rekja það til gengisfalls íslensku krónunnar og áhrifa þess á höfuðstól lána í erlendri mynt. Til að mynda standa heildarskuldir Orkuveitu Reykjavíkur, sem Reykjavíkurborg á tæplega 95 prósent hlut í, nú í rúmlega 230 milljörðum, en í lok árs 2007 voru skuldirnar rúmlega 100 milljarðar. Það gerir um 1,9 milljónir á hvern íbúa í Reykjavík.
„Það þarf að endurskoða ýmsa þætti er varða nýtingu eigna, skipulagsmál og uppbyggingu hverfa o.s.frv. Það er ekki hægt að fullyrða um nákvæmlega hvaða þættir það eru í lögunum sem þarf að breyta en ef fram fer heildstæð og vönduð vinna á þessu sviði, þar sem almennar leikreglur eru skýrðar, þá gæti það gert mikið gagn fyrir sveitarstjórnarstigið í heild,“ segir Trausti Fannar.