Blöskrar vinnubrögð Alþingis

Margrét Kristmannsdóttir
Margrét Kristmannsdóttir

Ef stjórnendur fyrirtækja hefðu fylgt fordæmi alþingismanna á undanförnum mánuðum væru fyrirtæki landsins enn verr stödd en þau eru  í dag. Þetta segir í ályktun stjórnar Samtaka verslunar og þjónustu sem lögð var fram í kjölfar fundar með viðskiptaráðherra fyrr í dag.

„Alþingismenn þurfa að taka sig saman í andlitinu og snúa bökum saman, eins og við sem erum í fyrirtækjarekstri höfum gert, við setjumst niður og ræðum málin," segir Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ.

„Okkur blöskrar að hafa horft upp á stjórnvöld vikum og mánuðum saman haga sér eins og þau hafa gert þar sem hver höndin er upp á móti annarri.“

SVÞ skorar á stjórnvöld að samþykkja á yfirstandandi þingi trúverðuga umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Mikil samstaða er innan samtakanna um aðild og telja félagsmenn að þannig fáist starfhæft rekstrarumhverfið sem sé fyrirtækjunum lífsnauðsynlegt.

„Það er ljóst að það er undir okkur komið að skapa þau 20.000 störf sem vantar, þau munu verða til í verslun, þjónustu og iðnaði frekar en í öðrum greinum, eins og til dæmis sjávarútvegi,“ segir Margrét. Til þess þarf lægri vexti og nothæfan gjaldmiðil.

Tvær tillögur ávísun á deilur um smáatriði

Í ályktuninni er gagnrýnt að tvær þingsályktunartillögur liggi fyrir Alþingi um aðildarviðræður. Slíkt sé ávísun á deilur um smáatriði og útfærsluleiðir. Þjóðin hafi hvorki tíma né efni á slíku núna.

„Það er gríðarlega mikilvægt að öflugur þingmeirihluti sé á bak við málið því umsóknin sjálf er ekki nóg, hún verður að vera trúverðug.“

Andstæðingar aðildar að ESB hafa bent á að evran komi ekki sjálfkrafa og samstundis með aðild. Evrópusambandið sé því ekki lausn á bráðavanda þjóðarinnar. Margrét kveðst að sumu leyti geta tekið undir þetta. Það breyti því hins vegar ekki að umsókn hefði strax umtalsverð áhrif, þó hún væri ekki lausn á öllum okkar vanda við þessar aðstæður. Ekki sé hægt að útiloka neinar leiðir fyrirfram. Óhagstæðum samningi yrði án efa hafnað í þjóðaratkvæði og því sjái þau í SVÞ ekkert því til fyrirstöðu að láta reyna á aðildarumsókn strax.

„Við teljum líka að trúverðug umsókn myndi sýna hvert Íslendingar vilja stefna. Með því myndi skapast ákveðin trú og traust á okkur Íslendingum sem skortir svo tilfinnanlega. Aukið traust kæmi án efa til móts við hluta af þeim bráðavanda sem við glímum við, t.d. í lægri vöxtum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert