Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara, sagðist í Kastljósi Sjónvarpsins ekki vera hrifin af þeirri hugmynd, að ríkissaksóknari verði settur af að hluta til og að sérskipaður ríkissaksóknari fjalli um mál, sem tengjast rannsókn á fjármálahruninu.
„Mér skilst að ríkisstjórnin sé að vinna að lausn en ef það er málamiðlun er það ekki fullnægjandi," sagði Joly, sem sagði að Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari yrði að víkja vegna óbeinna tengsla við fjármálakerfið.
Fram kom í kvöld, að Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, ætlar að skipa Björn Bergsson, hæstaréttarlögmann, sem ríkissaksóknara í öllum málum sem varða bankahrunið. Valtýr hefur þegar lýst sig vanhæfan í þeim málum en vegna lagalegra annmarka hefur dregist að skipa annnan í hans stað.
Joly sagði að Íslendingar þurfi reyndan ríkissaksóknara, sem er ekki vanhæfur og það hefði átt að vera búið að ganga frá þessu fyrir löngu. Hún sagði, að ríkissaksóknari muni, þegar rannsóknarnefnd Alþingis skilar skýrslu í nóvember, taka ákvörðun um hvaða málum verði vísað til sérstaks saksóknara og þá megi enginn efi ríkja um starfshætti.