Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur, sem situr í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið, segist ekki hafa neinn persónulegan hag af því að komast að einhverri ákveðinni niðurstöðu í skýrslu, sem nefndin á að skila næsta haust.
Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hefur krafist þess að Sigríður víki úr rannsóknarnefndinni vegna ummæla um bankahrunið á Íslandi, sem höfð voru eftir henni í skólablaði Yale-háskóla í Bandaríkjunum.
Sigríður segir í bréfi, sem hún sendi forsætisnefnd Alþingis í maí, að í lok mars hafi nemandi við Yale háskóla komið til hennar og spurt hvort hún gæti svarað nokkrum spurningum fyrir dagblað nemenda háskólans. Hún segist fram að þessu hafa neitað öllum viðtöðum, þar á meðal við New York Times og ákvörðun um að svara þessum spurningum hafi verið byggð á því að þetta voru nemendur hennar.
„Viðtalið fór fram á skrifstofu minni á almennum skrifstofutíma, tók um 10 mínútur og var ekki tekið upp til varðveislu. Ég las viðtalið ekki yfir, eins og augljóst má vera, þar sem margar augljósar rangfærslur eru í því," segir Sigríður í bréfinu.
Hún segist strax hafa tekið þá afstöðu, og standi við hana, að rökræða ekki hvort það sem kom fram í viðtalinu séu hennar orð eða ekki, þar sem um sé að ræða nemendur hennar. Þar með gangist hún við öllu, sem þar komi fram. Á hinn bóginn sé hvorki nein ákveðin persóna nefnd né stofnun. Engin eindregin eða ljós afstaða sé tekin til sakar eins né neins. Setningin, sem vísað er til í kæru Jónasar, sé mjög víðfeðm og mjög í samræmi við það sem fræðimenn í hagfræði um allan heim segi. Erindi Jónasar byggi hins vegar að mestu á innlendri þýðingu á tiltekinni setningu, sem kom fram í grein Viðskiptablaðsins og var birt án nafns dálkahöfundar. „Þykir mér sú þýðing þrengja merkingu setningarinnar nokkuð," segir Sigríður.
Setningin er svona í íslensku þýðingunni: „Mér finnst sem þetta [hrunið innsk. blm.] sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hluta eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu [að hafa] eftirlit með fjármálakerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu.“
Sigríður segist í bréfinu ekki hefðu veitt þetta viðtal ef hana hefði grunað til hvers það gæti leitt. „Í því sambandi vil ég benda á að ég hef enga reynslu af opinberu starfi sem þessu. Einnig vil ég leggja áherslu á að ég hef engan persónulegan hag af því að komast að einhverri ákveðinni niðurstöðu í skýrslunni. Því síður hef ég hag af því, starfsframa míns vegna, þar sem það eina sem máli skiptir í fræðilegu rannsóknarumhverfi er að nýta fyrirliggjandi gögn til að komast að hlutlægum niðurstöðum. Alls ekki að nýta gögn til að styðja við fyrirfram gefnar ályktanir, hvort sem að ætla megi að þær komi frá fræðikonunni sjálfri eða öðrum."
Hún segist síðan hafa lesið mikið efni, verið viðstödd margar yfirheyrslur og safnað miklum tölulegum gögnum. „Mér þætti því mjög miður að þurfa að yfirgefa þetta starf," segir hún en bætir við, að verði hún talin vanhæf sé ekki önnur leið fær en að hún segi af sér.