Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og oddviti sjálfstæðismanna, hyggst leggja það til við bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins að flokkarnir skipi viðræðunefnd um framhald meirihlutasamstarfs flokkanna.
Bæjarritarinn í Kópavogi gerði í morgun athugasemdir við þau ummæli í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte að Kópavogsbær hefði hugsanlega brotið lög um opinber innkaup við kaup á þjónustu Frjálsrar miðlunar. Tekið er fram í lögunum að viðmiðunarfjárhæðir laganna taki ekki til innkaupa sveitarfélaga, stofnana þeirra eða samtaka.
Í fréttum Útvarpsins í kvöld kom fram að Deloitte svaraði því til að rökstyðja mætti hugsanleg brot á lögum með öðrum hætti. Fyrirtækið standi við niðurstöður skýrslunnar og muni taka saman viðauka sem skýra þessa þætti betur.
Höfundar skýrslunnar hafa verið boðaðir á fund bæjarráðs Kópavogs á morgun. „Þeir eru að athuga siðferði í viðskiptum. Mér þykir það lítið siðferði ef þeir ætla að gefa sér niðurstöðuna og rökstyðja hana einhvern veginn,“ segir Gunnar Birgisson. Hann hefur gert athugasemdir við efni skýrslunnar. Frjáls miðlun er í eigu dóttur Gunnars og tengdasonar.
Gunnar segir að bærinn hafi sett sér innkaupareglur, í samræmi við lögin, fyrst 1999-2000 og uppfært þær síðan og gert ítarlegri. Þar sé miðað við að bjóða út þjónustukaup vegna viðskipta sem fari yfir 15 milljónir.
Fulltrúaráð Framsóknarflokksins í Kópavogi fundar annað kvöld um stöðu málsins. Þar mun Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi segja frá afstöðu sinni. Flokkarnir hafa verið í meirihlutasamstarfi í nítján ár.