Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra reiknar með að frumvarp um aðgerðir í ríkisfjármálum á þessu ári verði lagt fram öðrum hvorum megin við næstu helgi. Með því á að ná fram sparnaði og auknum tekjum, m.a. með hærri sköttum, til að ná niður 20 milljarða kr. viðbótarhalla á ríkissjóði á þessu ári.
Steingrímur segir ekki ólíklegt að ná þurfi a.m.k. um helmingi þessa með aukinni tekjuöflun. Því séu takmörk sett hvað hægt er að breyta miklu í rekstrinum á miðju fjárlagaárinu. Það sé þó enn ekki komið endanlega í ljós hver hlutföllin verða. Menn séu m.a. að horfa á fjáröflun Atvinnuleysistryggingasjóðs og Ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota. „Þeir þurfa báðir á auknu fé að halda vegna ástandsins. Þá er nærtækast að bera niður í þeim mörkuðu tekjustofnum sem þeir hafa,“ segir hann.
Steingrímur segir að reynt verði að dreifa byrðunum með félagslega sanngjörnum hætti.