Nýir liðsmenn slökkviliðs Brunavarna Árnessýslu hafa verið í þjálfun, meðal annars á námskeiðum Brunamálastofnunar. „Þetta er öflugur hópur manna,“ sagði Kristján Einarsson slökkviliðsstjóri í samtali við Dagskrána á Selfossi.
Fimmtán slökkviliðsmenn sögðu upp störfum hjá Brunavörnum Árnessýslu í vetur vegna deilna við stjórnendur liðsins. Hætti um helmingur þeirra um síðustu mánaðamót og hinir hætta á næstunni. Flestir eru búsettir á Selfossi. Með þeim fer mikil reynsla.
Þrettán nýir slökkviliðsmenn voru ráðnir og eru þeir nú í þjálfun. Þeir sóttu á dögunum námskeið í reykköfun og vatnsöflun. „Við horfum bjartsýn til framtíðar með þann stóra hóp manna sem í slökkviliðinu starfar í dag, nýliðarnir sem og þeir sem fyrir eru. Hér er stór hópur manna sem ólmir vilja gera sitt besta fyrir samfélagið,“ sagði slökkviliðsstjórinn við Dagskrána.
64 slökkviliðsmenn í hlutastörfum eru á útkallslista hjá Brunavörnum Árnessýslu.