Ráðherra leggst gegn sölu bríkurinnar

Möðruvallakirkja í Eyjafirði.
Möðruvallakirkja í Eyjafirði. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Menntamálaráðherra leggst gegn því að altarisbrík Möðruvallakirkju í Eyjafirði verði seld til Englands. Eigandi kirkjunnar hefur fengið boð um að nýta sér andmælarétt, áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

„Við höfum lagst gegn henni. Teljum að ekki eigi að fara með hana úr landi,“ segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra um umsókn eiganda jarðarinnar Möðruvalla í Eyjafjarðarsveit sem jafnframt er eigandi kirkjunnar um leyfi til að flytja altarisbrík kirkjunnar til Englands. Fyrirspurn hefur borist frá Christies uppboðshúsinu í London og telja sérfræðingar þess líklegt að gott verð fáist fyrir gripinn á uppboði eða í beinni sölu. Safnaráð hefur bannað útflutning altaristöflunnar á meðan málið er til umfjöllunar í ráðuneytinu.

Katrín segir að sérfræðingar telji að þessi altarisbrík hafi ótvírætt gildi sem menningarverðmæti og hana beri að varðveita í landinu. Hún bætir því við að bríkin eigi mikla og merka sögu á þessum menningarstað.

Safnaráð, Þjóðminjasafnið, Listasafn Íslands, Fornleifavernd ríkisins og biskup Íslands hafa lagst gegn sölu altarisbríkurinnar úr landi. Þjóðminjavörður segir mikilvægt að varðveita hana í kirkjunni þar sem hún hefur verið frá því á fimmtándu öld. „Sem sagnfræðingi og gömlum safnamanni þætti mér það mjög miður. Eðlilegast er að við fáum notið þessa áfram enda hníga öll rök og lagaákvæði í þá áttina,“ segir Eiríkur Þorláksson, sérfræðingur á skrifstofu menningarmála í menntamálaráðuneytinu þegar álits hans er leitað.

Menntamálaráðuneytið hefur gefið eiganda jarðarinnar tækifæri til andmæla, í samræmi við stjórnsýslulög. Hefur hann frest til 22. júní. Menntamálaráðherra segist ekki þekkja rétt eigandans til skaðabóta, verði komið í veg fyrir sölu altarisbríkurinnar úr landi.

Maríubrík frá fimmtándu öld

Altarisbrík Möðruvallakirkju er úr alabastri, ein af sjö altaristöflum frá Íslandi sem varðveist hafa í nær heilu lagi. Flestar eru á Þjóminjasafninu og ein í Kaupmannahöfn. Bríkurnar í Möðruvallakirkju og Þingeyrakirkju í Þingi eru þær einu sem varðveittar eru á upprunalegum stað.

Altaristöflu úr alabastri er fyrst getið í máldaga Möðruvallakirkju 1471 og telur Bera Nordal listfræðingur að hún sé frá 1450 til 1470. Bríkin hefur því verið í Möðruvallakirkju hálfa sjöttu öld. Í bríkinni eru sjö lágmyndir og er myndefnið sótt í sögu Maríu guðsmóður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert