Skeljungur hefur hækkað eldsneytisverð á ný eftir að hafa lækkað það í byrjun vikunnar þegar í ljós kom að 12,50 króna hækkun um mánaðamótin byggði ekki á réttum forsendum.
Félagið hefur nú hækkað verð á bensínlítranum um 6 krónur í 174,80 krónur og verð á dísilolíulítra um 4 krónur í 175,70. Segir Skeljungur á heimasíðu sinni að þessi hækkun hafi verið óhjákvæmileg sökum veikrar stöðu íslensku krónunnar og ört hækkandi eldsneytisverðs á heimsmarkaði. Hækkunin hafi verið dregin á langinn eins og unnt var.
Hækkun bensíngjaldsins um 10 krónur á samkvæmt þessu enn eftir að koma fram í bensínverðinu.