Hæstiréttur hefur dæmt 48 ára gamlan karlmann, Þorstein Kragh, í níu ára fangelsi fyrir innflutning á 192 kílóum af kannabisefnum og 1,3 kílóum af kókaíni á árinu 2008, í þeim tilgangi að dreifa efnunum og selja þau.
Ásamt Þorsteini var Jacob Van Hinte, 71 árs gamall Hollendingur, dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi. Frá fangelsisdómnum dregst gæsluvarðhald mannanna, sem báðir hafa setið í varðhaldi í ár.
Efnin fundust við komu farþegaferjunnar Norrænu til Seyðisfjarðar þriðjudaginn 10. júní 2008, falið í sérútbúnum geymsluhólfum í húsbifreið af gerðinni Iveco. Samkvæmt dómnum telst sannað að á fyrri hluta ársins 2008 lögðu Þorsteinn Kragh og Jacob Van Hinte á ráðin um flutning efnanna frá Hollandi til Íslands og hittust þeir í því skyni í Hollandi auk þess að vera í símasambandi.
Þorsteinn annaðist fjármögnun og kaup fíkniefnanna og hugðist taka á móti þeim á Íslandi en Jacob tók við efnunum í Hollandi og flutti þau þaðan í bílnum landleiðina til Danmerkur og þaðan með ferjunni til Íslands.
Fram kemur m.a. í dómi Hæstaréttar, að Jacob hafi árið 2005 verið dæmdur í 3 ára og 9 mánaða fangelsi í Alicante á Spáni fyrir innflutning á miklu magni fíkniefna til Spánar.
Aðfinnsluverð vinnubrögð lögreglu
Hæstiréttur féllst ekki á kröfu Þorsteins um frávísun málsins á grundvelli þess að hann hefði í fjölmörg skipti ekki fengið gögn afhent eða fengið þau of seint meðan á lögreglurannsókn stóð.
Hæstiréttur segir, að Þorsteinn hafi ekki haldið því fram að vörn hafi verið áfátt vegna þessa dráttar á afhendingu rannsóknargagna og sé ekki fallist á með honum að vísa beri málinu frá af þessum sökum. Hins vegar tekur Hæstiréttur undir það með héraðsdómi að þessi vinnubrögð lögreglu séu aðfinnsluverð.